9.12.2012 | 16:44
Jólatrésskemmtun
Kæru bloggvinir
Hér hefur ekki verið legið á meltunni undanfarið. Það var farið í það í dag að setja upp myndir í stofunni. Það hefur ekki tekið nema 4 ár að koma því í verk. Enda var þetta ekkert smá mál. Það hefur verið mjög gott veður í dag. En undanfarið hefur verið hryllilega kalt. Upp í 11 stiga frost. Maður finnur vel fyrir því þegar það er svona kalt. Gólfin hérna eru alveg ísköld þegar svoleiðis er. Við fórum út í göngutúr í morgun. Við keyptum snjóþotu handa Auði Elínu, en hún hefur nú ekki alveg fattað hvernig á að nota hana. Vill endilega fara með hana í leikskólann á hverjum degi, en það er spurning hversu mikið hún er notuð. En þetta er nú sennilega eins og svo margt annað hjá henni. Hún gerir þetta eins og henni hentar og svo allt í einu fær hún kannski áhuga á þessu. Það er nú líka erfitt að segja hversu lengi við höfum snjó. Þetta lýsir upp skammdegið og er alveg fínt, meðan þetta er ekki að fjúka út um allt.
Ungi maðurinn dafnar vel. Hjúkrunarkonan kom og kíkti á hann í vikunni. Henni leist bara mjög vel á hann. Hann var búinn að þyngjast um 350 gr á einni viku og það telst nú bara mjög gott. Hann er voða vær. Grætur ekki nema hann sé svangur. og sefur nokkra tíma í beit á nóttinni. Frúin er nú samt pínu þreytt´ því hún er vön að sofa töluvert meira en hún gerir núna. Hún sefur ansi oft yfir sjónvarpinu á kvöldin.
Á föstudaginn var jólatrésskemmtun í leikskólanum. Það var dansað kringum jólatréð með jólasveininum. Hann var töluvert líflegri en jólasveinninn í Tiset. Krakkarnir fengu auðvitað nammipoka. Svo eru íslensku jólasveinarnir væntanlegur í vikunni. Það verður spennandi að sjá hvernig hún tekur því. Hún hefur allavega mikinn áhuga á jólasveinum þessa dagana.
Annars líða dagarnir nú alveg ótrúlega hratt. Fyrr en varir verður drengurinn kominn til dagmömmu. Frúin ætlar að vera heima tæplega eitt ár. Við vonum að hann komist til sömu dagmömmu og Auður var hjá. Það væri mjög gott. Bæði af því það er hérna rétt hjá og af því sú kona er mjög góð.
Við eigum enn eftir að fara á jólamarkað. Það næst kannski næstu helgi. Það er allavega stefnan. Svo er búið að panta skírn fyrir drenginn 6 janúar. Nafnið er fundið en það er leyndarmál þar til í kirkjunni. Svo þið getið reynt að koma með hugmyndir, svo verðum við að sjá hvort þið getið upp á því.
Bóndinn er búinn að setja inn fleiri myndir. Endilega kíkið á þær.
jæja best að fara að sinna börnum og búi.
Jólakveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og litli prins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.