16.12.2012 | 18:48
Jólasveinn á flugi
Kæru bloggvinir
Þá er komin hláka hjá okkur og snjórinn óðum að hverfa. Í staðinn fáum við grámygluveður. En við erum nú búin að hafa snjó mestallan mánuðinn og það hefur lýst upp mesta skammdegið.
Bóndinn er búinn að missa sig í jólaskreytingum bæði innandyra og utan. Það þarf örugglega að kaupa fleiri kassa til að geyma þetta allt í, eftir jólin. Hann er meira að segja farinn að plana hvernig hann ætlar að skreyta á næsta ári.
Bóndinn dreif sig líka í að svíða 10 lambahausa á föstudaginn. Það var ansi kalt, svo hann ætlar víst ekki að svíða hausa að vetri til aftur. En nú erum við allavega vel byrgð af sviðahausum. Ungi maðurinn hefur verið eitthvað órólegur undanfarið, en það getur vel verið að hann hafi verið svangur. Við erum allavega farin að gefa honum meira að borða og það virðist hafa róað hann eitthvað. Annars er hann allur að koma til. Hann er orðinn mun meira vakandi, og pælir í hlutunum í kringum sig.
Í gær fóru þau feðgin í sund í síðasta skipti fyrir jól. Við vonum að frúin og ungi maðurinn komist með eftir áramót. VOnandi að hann verði ekki eins stressaður yfir því eins og Auður var. Hann er allavega mjög rólegur svona almennt og kippir sér ekkert upp við þó það séu læti í kringum hann. Það er allavega góð byrjun til að fíla það að vera í sundi.
Það er ótrúlegt að þó maður hafi byrjað að undirbúa jólin mjög tímanlega í ár, af því við vissum það yrði nóg að gera, þá er samt hellingur eftir. En við reiknum nú með að ná því í þessari viku. Það sem við ekki náum, verður þá bara eftir.
Í dag skelltum við okkur í jólabæ hérna rétt hjá. Þar var fljúgandi jólasveinn, og líka nokkrir labbandi. Auður fékk að fara í svona traktorslest og í hringekju. Henni þótti þetta hin besta skemmtun. Hún er alveg æst í að hlusta á jólamúsík. Það er hlustað á það á hverjum degi í bílnum. Hún kann orðið marga teksta.
Jæja best að fara að hætta þessu í bili
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og litli gaur
Athugasemdir
Hæ, hæ.
Langt síðan ég hef kvittað fyrir lesturinn en hann er samt alltaf lesinn á sunnudögum samviskusamlega. Alltaf gaman að vita hvað er að gerast ý ykkar koti. Hér syngur kallinn út í eitt á aðventunni með tveimur kórum og ég hlusta stundum á. Annars er allt gott að frétta héðan og jólaundirbúningurinn gengur hægt og rólega að vanda.
Kveðja frá öllum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 16.12.2012 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.