30.12.2012 | 21:19
Jól og áramót
Kæru bloggvinir
Gleðileg jól og gleðilegt nýtt ár. Frúin áttaði sig á því í miðri þessari viku að hún hafði gleymt að skrifa blogg síðasta sunnudag. Það er svona þegar það eru svona margir helgidagar, þá fer allt í vitleysu. Við vonum að dyggir lesendur okkar fyrirgefi okkur þessi mistök.
Við erum búin að hafa það mjög gott um jólin. Borða góðan mat og hafa það notalegt. Við fengum senda skötu og hangikjöt að heiman og það var náttúrlega bara meiriháttar. Ótrúlegt hvað manni finnst muna miklu að hafa mat að heiman þegar maður getur ekki verið á staðnum. Auður var alveg að rifna úr spenningi yfir öllum pökkunum. Hún fékk að opna pakkana sem bróðir hennar fékk og vildi líka opna okkar pakka. Hún fór að spá í því á aðfangadagskvöld hvenær jesús kæmi eiginlega. Sennilega af því að það var búið að tala svo mikið um alla jólasveinana sem komu.
Það kom smá snjór rétt fyrir jól og var farinn aftur jóladag. Svo við getum ekki kvartað yfir að hafa ekki haft hvít jól. Það var auðvitað mjög fallegt að hafa smá snjó. Síðan hefur verið hálf hráslagalegt og rigning. Við vonum að það viðri sæmilega á morgun, svo maður geti allavega farið aðeins út og skjóta upp smá flugeldum. Auður er líka mjög spennt yfir því, en það er spurning hvort hún verði ekki bara skelfingu lostin þegar þetta fer að puðrast upp. Hún er nú yfirleitt frekar lítil í sér. Hún hefur verið ansi pirruð síðustu daga. Sennilega af því hana vantar að komast í rútínurnar í leikskólanum og svo af því henni finnst frekar pirrandi að við getum ekki sinnt henni á sama hátt og áður en hún eignaðist litla bróðir. Hún vill fá athygli strax og hún biður um það og finnst ekki mjög gott að þurfa að bíða. En henni virðist nú finnast hann mjög spennandi og vill ekki missa hann.
Litli bróðir hefur ekkert verið að stressa sig mikið á jólunum. Það er fyndið hvað hann virðist vera allt öðruvísi en Auður var. Allavega akkúrat núna. Hann er miklu æstari í skapinu og fer á háa c við minnstu vandræði. Hann nennir ekkert að hafa of mikið fyrir hlutunum, svo ef hann fær ekki mjólk um leið og hann byrjar að sjúga, þá fer hann yfirum. Það er ótrúlega fyndið að upplifa muninn.
Presturinn sem á að skíra, kom í heimsókn á föstudaginn. Hann er voða almennilegur, en okkur finnst hann nú frekar gamaldags. Þetta er nú samt ungur maður.
Á morgun koma svo Guðný, Óli og börn í mat. Auður er orðin mjög spennt að fá Arndísi vinkonu sína í heimsókn. Spurning hvort þær eiga eftir að geta leikið saman án þess að rífast mjög mikið. Við buðum svo líka eldri konu sem við erum nýlega búin að kynnast. Hún hefur engin samskipti við börnin sín og átti því að vera ein annað kvöld. Hún var voða fegin að fá að vera hjá okkur. Auði líkar mjög vel við hana og hefur verið í pössun hjá henni einu sinni.
Jæja ætli sé ekki best að fara að slappa af fyrir átök morgundagsins.
Áramótakveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Gleðilega jólarest !
Gott að heyra frá ykkur, maður var farin að fá fráhvarfseinkenni. Hér voru róleg og notaleg jól að venju en enginn var nú snjórinn. Hann kom reyndar á föstudaginn og er eitthvað eftir af honum ennþá. Við verðum bara fjölskyldan í kalkúninum í kvöld plús eitt viðhengi, Steinunn er komin með kærasta hann Steinar.
Hlökkum til að heyra hvað litli kall á að heita og biðjum að heilsa stóru systur.
Áramótakveðjur
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 31.12.2012 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.