7.1.2013 | 19:41
Skírn
Kæru bloggvinir
frúin biðst velvirðingar á því að bloggið ekki kom á réttum tíma þessa vikuna, frekar en í síðustu viku. Hún verður að fara að taka sig á í þessu. Batnandi fólki er best að lifa, er það ekki?
Hér hefur allt verið á fullu við að undirbúa skírnarveislu. Drengurinn var svo skírður í gær og fékk nafnið Ágúst Ægir. Við hjónaleysin vorum nú frekar ósammála um nafnið til að byrja með, en skrifuðum niður þau þrjú nöfn sem okkur fannst helst koma til greina. Við skrifuðum bæði nafnið Ágúst og það var ákveðið að það gengi bæði á Íslandi og hér í Danaveldi. Síðan var Ægis nafnið valið sem tenging við Ísland og svo af því að drengurinn er nú bæði ljúflingur, en líka hörkutól. Hann fæddist með naflastrenginn vafinn 4x um hálsinn, en kláraði sig vel af því. Presturinn átti heldur ekkert allt of erfitt með að segja Ægis nafnið og það eru nokkrir Danir búnir að reyna að segja Ægis nafnið, með misjöfnum árangri. En mestu skiptir að þeir reyna. Eftir skírnina var svo boðið í hádegismat og kökur. Þetta fór allt vel fram, en það er nú ekkert of mikið pláss fyrir marga gesti hérna inni. En þetta hafðist allt saman.
Auður Elín var alveg rosalega stillt í kirkjunni. Hún er vön að fara í kirkju, bæði með dagmömmunni og leikskólanum. Henni finnst mjög spennandi að fara í kirkju og sat með sálmabókina á lærunum og fylgdist með. Hún verður einhvern tíma góð.
Planið var svo að slappa af í dag, en það gekk nú ekki eftir. Það hljóta að koma dagar þar sem það verður eitthvað rólegra hjá okkur.
Ágúst Ægir hefur tekið því ansi vel að vera skírður. Hann svaf mestallan tímann í kirkjunni í gær og líka eftir hann kom heim. Hann er orðinn betri í maganum. Við skiptum uim þurrmjólk og það virðist vera betra fyrir hann. Við vonum að það haldi áfram að ganga betur. Hann er voða fyndinn týpa. Hann getur verið sallarólegur og svo orðið alveg brjálaður á nokkrum sekúndum og svo róast aftur, þegar hann fær það sem hann vill.Nú þarf maður svo bara að venja sig á að kalla hann nafninu. Það er svo langt síðan við ákváðum það, en vildum ekkert segja fyrr en eftir skírnina.
Bóndinn er heima þessa vikuna, en í næstu viku fer hann aftur að vinna, svo þá þarf frúin að fara að venja sig á að vakna snemma og koma Auði á leikskólann. En þetta hlýtur að hafast.
Það ættu að koma myndir fljótlega úr skírnarveislunni. Við keyptum skírnartertu hjá bakara hérna rétt hjá. Við fundum mynd á netinu af tertu sem okkur fannst flott og sýndum honum. Honum þótti þetta nú voðalega mikið vesen og röflaði einhver ósköp, en þetta varð nú mjög fínt hjá honum.
Jæja best að fara að henda sér í sófann.
Kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.