10.2.2013 | 18:45
Heimsókn á slysó
Kæru bloggvinir
hér hefur verið mikið að gera síðustu viku. Ágúst Ægir hefur verið mjög kvefaður. Frúin fór með hann til læknis og hann er kominn með bronkítis. Hann er þó hitalaus og mjög hress. Hann er búinn að fá pensillínkúr og við vonum að það hjálpi eitthvað. Hann er með ljótan hósta. Sem betur fer sefur hann ágætlega og er almennt geðgóður.
Á föstudaginn datt Auður Elín úr leikturni í leikskólanum og ca. 1.50 m. niður á dýnu á gólfinu, Hún kveinkaði sér nú ekkert mjög mikið. En við ákváðum að fara með hana á slysó til öryggis. Það var tekin mynd. En þar sem það er enginn læknir á vakt á slysavarðstofunni hér næst okkur, þá þarf að bíða þar til á morgun með að finna út, hvort hún er brotin. En til öryggis var hún sett í gips. Ef hún er brotin þarf hún að vera í gipsi í 3 vikur, en annars megum við taka það af á morgun eða þriðjudaginn. Svo nú er bara að sjá. Eftir þetta allt saman finnst manni þetta nú bara orðið gott í bili. Við vonum að næsta vika verði friðsamlegri. Bóndinn er í fríi, en við reiknum nú ekki með að fara í langa túra. Kannski kíkjum við til Árósa. Það er orðið ansi langt síðan við vorum þar.
Annars hefur lífið gengið sinn vanagang. Í dag er öskudagur og bolludagur. Við fórum í kaffi til Sönderborg. Þau eru að flytja til Odense, svo það verður heldur lengra að fara í kaffi. En við verðum örugglega fljót að venjast því. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Við erum búin að borða heimabakaðar vatnsdeigsbollur. Við erum örugglega búin að fá nóg af rjóma í dag.
Það er lofað kólnandi veðri í næstu viku. Það er ýmist í ökkla eða eyra. Það eru margir kvefaðir, sennilega af því að veðrið er ýmist kalt eða heitt.
Það mætti alveg fara að vora, en við verðum víst að bíða eitthvað lengur eftir því.
Jæja það er víst ekki mikið meira í fréttum hér í bili .Endilega kíkið á myndirnar sem bóndinn var svo duglegur að setja inn.
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.