Sjúkrahúsvist

Kæru bloggvinir

hér hefur aldeilis verið mikið að gera síðustu dagana. Það er ennþá ansi kalt, en þeir eru nú að lofa eitthvað hlýnandi veðri í næstu viku. Við bíðum spennt eftir vorinu. Það verður nóg að gera eins og venjulega.

Ágúst Ægir hefur verið voðalega kvefaður og átti að fara í fyrstu bólusetninguna á þriðjudaginn. En lækninum leist ekki á hóstann í honum svo hún sendi okkur til barnalæknis. Við fórum til hennar á fimmtudaginn og hún hélt að Ágúst gæti verið með kíghósta eða RS vírus. VIð mæðginin vorum því send á sjúkrahúsið í Sönderborg til frekari rannsókna. Það varð að senda stjúpömmuna að sækja Auði og passa hana þar til bóndinn var búinn að vinna. Frúin var lögð inn á barnadeildina á sjúkrahúsinu og kom ekki heim fyrr en í dag. Ágúst er búinn að fá astmapúst alla dagana og það hefur hjálpað. Hann hóstar allavega minna og líður betur. Hann hefur verið nánast hitalaus, sem betur fer og hefur getað sofið nokkuð vel á nóttinni. Það kom í ljós að drengurinn er hvorki með kíghósta, né RS vírus. Þetta er sennilega bara svæsið bronkítis. Það er mjög algengt hérna. Það er víst líka mjög mikið af börnum sem fær RS vírus þessa dagana, svo það er gott að við sluppum við það. Þær sögðu á sjúkrahúsinu að það væri mjög algengt að börn sem ættu eldri systkini væru oftar veik, af því eldri systkinin bera heim alls konar bakteríur. Við vorum sett í einangrun til að byrja með og máttum ekki fara út af stofunni. Kosturinn við það var að manni var færður matur og öll þjónusta. Frúin slappaði næstum því af. Það var voða gott að koma heim og ég er ekki frá því að drengurinn hafi bara lagast heilmikið við það. Það er örugglega mun heilbrigðara loftið hérna hjá okkur en á sjúkrahúsinu. Það var svo þurrt loftið að frúin var orðin skrælnuð á höndum og í andlitinu. Hún drakk og drakk en var alltaf þyrst. Við vonum nú fari þessu veikindastandi fari eitthvað að létta. Við erum ekki vön þessu. En við erum svo sem búin að vera ótrúlega heppin. 

Bóndinn og Auður fengu að gista hjá Óla og Guðný og Auður gat leikið við Arndísi. Þær voru nú orðnar eitthvað þreyttar á hvor annari. En það verður vonandi fljótt að lagast.  Auður hefur annars staðið sig eins og hetja og Ágúst Ægir líka. Hann hefur brosað að þessu öllu saman og hjúkrunarkonurnar og læknarnir hafa aldrei séð annan eins sjarmör og hörkutól. Ekki að spyrja að því! 

Jæja best að fara að hætta þessu veikindatali. Það hefur lítið annað gerst hér síðustu vikuna. Vonandi höfum við frá einhverju meira spennandi að segja í næstu viku.

 

kveðja

Lasarusar 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl og blessuð

Æ,æ, leiðinlegt að heyra af þessum veikindum en vonandi fer Ágúst Ægir og hrista þetta af sér. Hér er alltaf vorveður, rigning og 6 - 8 stiga hiti. Vorum með allt stóðið í kjötsúpu áðan sem kallinn eldaði bara góð.

Batakveðjur úr Garðinum 

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband