10.3.2013 | 12:50
Vorið farið
Kæru bloggvinir
við héldum að vorið væri komið, en það er farið aftur. Það er búið að vera skítakuldi hér í síðustu viku og hífandi rok. Algjör ófögnuður. En einhvern tíma hlýtur þetta að snúa á betri veg. Frúin var búin að pakka vetrarfötunum niður, en það verður víst að fara að týna þetta upp úr skúffunum aftur.
Það hefur nú allt verið með ró og spekt hér síðustu vikuna. Fastir liðir eins og venjulega. Ágúst Ægir er ennþá kvefaður en vonandi fer þetta nú að lagast. Við ætlum að prófa að fara með hann til svæðanuddara. Frúin hefur heyrt að það eigi að geta hjálpað við svona kvefi. Við fórum einu sinni með Auði til svona svæðanuddara. En hún var svo undarleg að það hjálpaði nú ekkert. Við prófum þetta og sjáum hvort það hafi eitthvað að segja.
Við fórum í sund í gær í fyrsta skipti í mjög langan tíma. VIð höfum ekkert komist fyrir veikindum. Þetta er í annað sinn en Ágúst Ægir fer í sund. Hann fílar það alveg í botn og er voða stilltur, líka í sturtunni. Auður var auðvitað alveg á útopnu og djöflaðist alveg eins og hún fengi borgað fyrir það. Vinkona hennar var í heimsókn hjá pabba sínum hérna á móti. Þær fengu að leika saman í gær og það vakti mikla lukku. Auður skilur ekkert í því að hún geti ekki farið þangað aftur í dag. En foreldrarnir eru skilin og stelpurnar eru bara hjá pabba sínum um helgar. Þær vilja ekki vera einar hjá honum, svo mamma þeirra verður að vera með þeim. Það er eins gott að þau eigi auðvelt með að umgangast hvort annað.
Ágúst hefur ekki gefið mikið frá sér af hljóðum, en hann situr oft og spriklar með löppunum, baðar út öllum öngum og hreyfir höfuðið eins og hann sé í hörkusamræðum. En undanfarið hafa verið að koma meiri hljóð. Það er rosa fyndið að fylgjast með því. Hann er mjög félagslyndur og vill helst ekki liggja einn og dunda sér. Hann er mjög brosmildur og brosir allan hringinn þegar hann sér systur sína.
Helgin hefur verið óvenju róleg. Það er langt síðan við höfum tekið því svona rólega. Maður kann bara ekki við þetta. Við erum búin að panta okkur sumarbústað um páskana. Það hefur ekki gerst í 10 ár að við höfum farið í sumarhús. Það verður spennandi að sjá hvað börnin segja við því. Við ákváðum að leigja bústað hérna rétt hjá. Svo er stefnan tekin á að kíkja á klakann í sumar. Svo þið getið farið að baka í frystirinn.
Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi.
kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Jei, mikið er ég glöð að þið séuð að koma :)Þið vitið að það er skylduheimsókn til mín, er það ekki?
Hildur Bjargmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.