14.4.2013 | 11:57
Vor í lofti
Kæru bloggvinir
Við erum að vona að nú sé að koma smá vor. Það er allavega pínu vor í lofti í dag og á morgun eru þeir að spá 15-20 stiga hita. Það þarf allavega að fara að huga að því að pæla upp kartöflugarðinn og setja niður kartöflur. Kartöflusendingin frá Íslandi klikkaði, svo við setjum bara niður danskar i staðinn. Svo verður sett niður eitthvað annað smotterí. Auði finnst allavega mjög sniðugt að setjum niður gulrætur. Það er svo sem ekki af því okkur vantar eitthvað að gera. Það virðist alltaf vera brjálað að gera og bætist við, þó maður reyni að klára eitthvað.
Við fórum í sund í gær. VIð höfum ekki komist lengi og það vakti mikla lukku. Það eru bara tvö skipti eftir fram að sumarfríi, svo það er um að gera að reyna að vera með. Það vinnst ekki mikill tími í að fara í sund á sumrin. Þar fyrir utan er það mjög dýrt.
Annars hefur allt verið með frið og spekt hér undanfarið. Börnin eru að jafna sig eftir kvefpestirnar og eru nánast hætt að hósta. Ágúst Ægir er að þroskast voða mikið. Hann er farin að fatta að hann getur rifið og tætt með höndunum og getur líka tosað í tásurnar á sér. Hann er farinn að rífa í hárið á systir sinni, ef hann kemst í tæri við hana. Henni finnst það nú fyndið eins og er. En ég býst við að þegar hann fer að verða sterkari, þá verði hún ekki jafn hrifin. Hann ljómar eins og sól í heiði þegar hann sér systir sína. Hún er voða dugleg að hugga hann og syngur gjarnan fyrir hann. Hún er mikill söngfugl og bullar heilu lögin upp úr sér. Stundum blandar hún saman, einhverju sem hún kann og svo einhverju bulli.
Í dag fór hún svo í heimsókn til vinkonu sinnar og hún kom svo yfir til okkar og þær eru að leika saman núna. Það gengur nú stórslysalaust að mestu leyti. Það eru einhverjir smá árekstrar.
Annars er bara verið að reyna að plana brúðkaup. Það er nú pínu erfitt að skipuleggja brúðkaup i öðru landi og við erum búin að komast að því að fyrirtæki a Íslandi eru langt á eftir í heimasíðugerð. Það er mjög erfitt að finna upplýsingar á íslenskum síðum. Fyrirtæki hér verða að vera með góðar heimasíður ef þau ætla að lifa af. Frúin er búin að finna kjól, svo er bara spurning hvort hun geti pantað hann. Við héldum það væri ekkert mál að panta boðskort á einhverri síðu hérna úti, það eru mörg fyrirtæki sem bjóða upp á það. En þá var ekkert fyrirtæki sem bauð upp á að gera textann á öðru tungumáli en dönsku. Svo það eru smá vandamál, en þetta leysist nú sennilega allt á endanum.
Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi.
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.