Annríki

Kæru bloggvinir

Hér er vor annan hvern dag. Í gær héldum við þetta væri alveg að koma. Við vorum úti næstum allan daginn. Við settum allt dótið hennar Auðar út og þvoðum það, ekki veitti af eftir veturinn. Hún var alsæl og fór strax að leika sér. Hún er orðin voða dugleg að leika sér og dundar sér heillengi ein. Hún setur upp heilu veislurnar og finnst þetta voða skemmtilegt. Það er rosa gaman að fylgjast með þessu. Hún er orðin mjög dugleg að benda manni á, ef henni finnst einhver ekki fylgja reglunum. Hún verður einhvern tíma góð. Maður er heppinn ef maður er ekki skammaður. Hún er með allar reglur á hreinu og man alveg hvað við höfum sagt. Svo það er eins gott að við segjum það sama. 

Í dag eru Auður og vinkona hennar frá leikskólanum búnar að leika saman. Vinkonan kom töltandi hér yfir frá pabba sínum í morgun. 

 Eftir margra ára leit erum við loksins búin að finna út hvernig við eigum að hengja gardínur á gluggana hjá okkur og höfum lengi ætlað að reyna að hengja eitthvað fyrir gluggana. Það var auðvitað ekki auðhlaupið að því og eftir að hafa baxað heillengi við að koma einni rúllugardínu upp, komumst við að því að þær væru ónýtar. Það var því ekki annað að gera en að fara og kaupa nýjar gardínur. Við tókum Auði og vinkonu hennar með. Þær voru alveg á útopnu og eins gott að maður hafi góðar taugar þegar maður fer með svona grallara í búðir.  Gott að maður á ekki fleiri börn. Þá þyrfti maður örugglega að vera á róandi. Þær eru álíka miklir grallarar og finna upp á ýmsu saman. 

VIð vorum eitthvað sein að kaupa útsæði, og þær eru því enn í spírun. Það var kannski eins gott að við vorum ekki komin lengra, því það var frost í nótt. Vonandi fer þetta nú að hætta. 

Frúin hélt hún gæti verið heima í barneignafríi fram í október, en hafði greinilega eitthvað misskilið reglurnar. Hún komst að því í vikunni og er að reyna að semja við yfirmanninn að byrja 1. ágúst og byrja á að vinna færri tíma á viku. Þá ætti þetta allt að geta gengið upp. En allt svona er voðalega mikið mál og það þarf að ræða þetta fram og aftur. Þeir eru ekki hrifnir af að fólk sé í hlutastarfi. En við vonum það besta. Það væri voða gott að þurfa ekki að vinna fulla vinnuviku til að byrja með. Það verður nú einhver sirkus að koma liðinu af stað þegar maður byrjar að vinna. En svo hlýtur þetta að komast í vana.

Ágúst Ægir er orðin voða duglegur að borða graut og kartöflumauk. Hann virðist ekki vera mjög matvandur. Tekur allavega á móti öllu sem honum er boðið, allavega ennþá. Þau systkinin eru voða dugleg að sofa á nóttinni í augnablikinu og sofa oftast alla nóttina. Það er voða munur. 

Það er stefnt að því að fara í kartöfluniðursetningu næstu helgi. Það er löng helgi af því það er bænadagur á föstudaginn. 

Jæja best að fara að koma börnunum í bólið

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og 'Agúst Ægir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband