28.4.2013 | 18:05
Bænadagurinn
Kæru bloggvinir
við höfum haft einn extra frídag þessa helgina. Á föstudaginn var bænadagurinn. Þetta er einn af þessum helgidögum sem enginn veit af hverju er helgidagur. En það er svo sem ekki svo mikilvægt. Fínt að fá auka frídag. Við vorum allan daginn að reyna að grafa trambolínið niður. Það gekk nú eitthvað brösuglega. Við erum að spá í að kaupa aðeins notað minna trambolín og setja í holuna. Svo getum við notað núverandi trambolín sem varahluti. Það hefur verið ágætis veður, en ekkert séstaklega hlýtt. Það hefur verið næturfrost, en það er nú eitthvað að lagast. Í dag hefur svo verið sól og gott veður. En við brunuðum til Odense að sjá nýja barnið hjá Guðný og Óla. Hann er alveg glænýr. Bara 3 daga gamall. Þó það séu bara 5 mánuðir síðan við eignuðumst Ágúst Ægi, þá er maður alveg búin að gleyma hvað þessi nýfæddu börn eru lítil. Ágúst Ægir var eins og risi við hliðina á honum. Hann er reyndar búin að taka voða vaxtakipp eftir hann hætti að vera kvefaður. Hann blæs út þessa dagana. Hann er voða ánægður með að liggja á gólfinu og toga í tærnar á sér. Hann klæjar voða mikið í góminn og er stundum pínu pirraður yfir því. Hann brosir sínu blíðasta þegar hann sér systir sína og hlær að henni. Henni finnst það auðvitað voða skemmtilegt.
Í gær var síðasti dagurinn í sundi. Við renndum svo til Þýskalands. Eftir þetta allt saman fengum við pössun fyrir börnin og fórum út að borða og í bíó. Við höfum nú ekkert farið ein, eftir að Ágúst fæddist. Það er víst hollt og gott fyrir bæði börn og foreldra að fá smá pásu frá hvort öðru og börnin virtust svo sem ekkert hafa haft slæmt af þessu.
Auður er orðin alveg ótrúlega dugleg að dunda sér ein og leika sér. Hún hefur aldrei leikið mikið með dótið sitt, en núna semur hún heilu ævintýrin og leikur alls konar leiki. Hún hefur talað voða mikið um einhvern strák sem hún leikur við í leikskólanum. Frúin kannaðist ekki við nafnið á honum, svo hún spurði fóstrurnar hvaða piltur þetta væri. Hann er þá á annarri stofu, en þau leika sér oft saman þegar þau eru úti. Hún vill sjálf meina að hann sé kærastinn hennar. Það byrjar snemma. Hún vill gjarnan vera úti að leika sjálf og það er auðvitað fínt. Það er aðallega vandamál fyrir móðurina, sem er eitthvað stressuð yfir þessu. Þetta er eflaust góð æfing fyrir okkur báðar.
Í nótt þegar frúin fór framúr að gefa Ágústi að borða, heyrði hún bremsuhljóð og rosa dynk. Það var greinilega einhver sem náði ekki beygjunni hérna fyrir ofan hjá okkur. Ekki í fyrsta skipti. Það stormaði fólk á slysstaðinn, svo frúin ákvað að vera ekkert að blanda sér í málið. Í morgun sáum við svo að það hafði bíll keyrt á skilti, örugglega oltið og stoppað rétt fyrir framan rúllubindivél. Það er alveg ótrúlegt að það sé ekki hægt að fá einhverjar úrbætur á veginum hérna í gegnum bæinn. Við höfum búið hér í næstum 5 ár og þetta er allavega í fjórða skipti sem fólk nær ekki beygjunni og keyrir á. En það kostar sennilega of mikla peninga að gera eitthvað í þessu. Við höfum ekkert heyrt um hvort það urðu einhver slys á fólki, en það er nú ekki ólíklegt miðað við hvernig bíllinn leit út.
Við erum nú ennþá í pínu sjokki yfir kosninganiðurstöðunum að heiman og það er nokkuð ljóst að líkurnar á að við flytjum heim næstu 4 árin hafa minnkað allverulega. Það liggur við að maður skammist sín fyrir að vera Íslendingur núna. Við höfum ekkert heyrt um þetta í fréttum hér, en sáum að bæði Norðmenn og Bretar höfðu tjáð sig um málið. En við verðum að vona það besta og kannski hafa menn bætt sig og gera eitthvað gott fyrir land og þjóð.
Jæja þetta er víst það helsta af vígstöðvunum hér
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.