5.5.2013 | 13:13
Sól í heiði
Kæru bloggvinir
hér er sólin eitthvað að rembast við að kíkja gegnum skýin. Það er búið að vera sólríkt síðustu daga, en oft ansi mikið rok og þar af leiðandi frekar kalt. Trén eru loksins að laufgast eitthvað smá, svo þetta hlýtur nú allt að fara að koma. Það tókst að henda niður kartöflum í gær og rófum, rauðrófum og gulrótum. Þetta er heilmikil vinna að undirbúa garðinn, minnsta málið er sennilega að setja niður í hann. Það er hins vegar mjög huggulegt að geta svo farið út á sumrin og sótt grænmeti í sinn eigin garð.
Í gær var farið á stóran útimarkað hér rétt hjá. Þar var óttalega lítið merkilegt. En frúin fékk smá notuð barnaföt á börnin. Annars er þetta óttalegt drasl. Aðalástæðan fyrir að við fórum var að leyfa Auði að prófa tívolí sem var þarna. Henni fannst það voða gaman, en er nú frekar hrædd við stóru tækin. Sem er kannski eins gott því ekki myndi mamman þora að fara með henni í þau. Maður verður svo lífhræddur þegar maður eignast börn, að maður þorir bókstaflega engu.
Annars var voða mikið að gera hjá ungfrúnni í gær. Í gærmorgun kom vinur hennar í óvænta heimsókn. Þau voru saman hjá dagmömmunni og náðu voðalega vel saman. Þau hittast ekkert oft, en þegar þau hittast eru þau voða dugleg að leika. Seinnipartinn kom svo vinkona Auðar sem var í heimsókn hjá pabba sínum hérna á móti. Hún var því orðin ansi þreytt þegar kom að kvöldmat og var fljót að sofna.
Í morgun fórum við svo og keyptum tvíhjól handa henni með hjálpardekkjum. Hún var voða spennt yfir þessu, en svo þegar átti að fara að hjóla fór allt í baklás. Það er voða oft þannig með hana þegar hún á að prófa eitthvað nýtt, að hún þarf tíma til að finna út úr því á sinn hátt og við getum gleymt því að reyna að ýta eitthvað á það. Við vorum nú reyndar að pæla í að senda hana kannski með hjólið í leikskólann, hún getur kannski lært að hjóla þar.
Frúin er eitthvað að reyna að taka sig á í að taka myndir af börnunum. Næsti höfuðverkur er svo að fá þær inn á netið. Það verður að fara að vinna í því.
Jæja best að fara að sinna börnum og búi.
kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Hæ,hæ.
Alltaf gaman að heyra frá ykkur. Vorum að fá þetta fína boðskort inn um lúguna. Mætum að sjálfsögðu ef við finnum lundinn. Hér hefur verið frekar kalt og frost á nóttunni en hlýnaði um helgina en það á víst að fara að kólna aftur. Kennslan búin hjá Braga svo það er öfund mín megin því ég á eftir að kenna út mánuðinn.
Kærar kveðjur frá öllum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 5.5.2013 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.