Frídagar

Kæru bloggvinir

Þá er enn ein löng helgin liðin. Það var uppstigningardagur á fimmtudaginn og svo voru margir í fríi á föstudaginn. Bankarnir eru byrjaðir að hafa lokað á þeim degi. Manni finnst það nú kannski fullgróft. En þeir eru að þessu til að fá fleiri samliggjandi frídaga. Bóndinn var reyndar ekki í fríi á föstudaginn. En hefði nú sennilega alveg getað það ef fyrirtækið væri betra að skipuleggja sig. En það gerist nú sennilega ekki í bráð.

Annars hefur kólnað aftur. Það voru nokkrir dagar með brjálaðri blíðu, og maður svitnaði bara við að hugsa. En við þoldum greinilega ekki of mikið af því. Við erum eins og venjulega búin að hafa nóg að gera í ýmsum útréttingum. Við þurftum að fá annan bílstól fyrir Ágúst af því hinn var orðinn fulllítill. Það er hægt að fá þá leigða í nokkra mánuði, sem betur fer, af því maður þarf að kaupa stærri stól þegar hann er 9 mánaða. Annars verður það nú sennilega eitthvað fyrr því hann bara stækkar og stækkar. Hann er rosalega duglegur að borða og vill fá matinn og engar refjar. 

Í dag fórum við svo til Odense í heimsókn. Við keyptum annað trambolín í leiðinni af því það var svo dýrt að laga það gamla. Svo nú þurfum við að taka gamla trambolínið upp úr holunni, setja nýja trambolínið saman og koma því niður í jörðina. Þá ætti nú að vera hægt að hoppa meira. Auði finnst það voða skemmtilegt. Hún er orðin voða dugleg að leika úti, bæði í leikskólanum og hérna heima. Hún getur alveg dundað sér ein og búið til heilu ævintýrin. Hún er voða dugleg að syngja og er alltaf að semja einhverja texta. Hún verður einhvern tíma efnileg. 

Ágúst dafnar eins og blóm í eggi. Hann er mjög athugull og fylgist vel með öllu í kringum sig. Hann er ekki nærri eins duglegur að hreyfa sig og systir hans var á sama aldri, en á móti kemur að hann er meira að spá og spekúlera. Hann er voða pirraður í munninum, en ekkert bólar á tönnunum ennþá. Þetta mætti nú alveg fara að koma.

Brúðkaupsundirbúningurinn gengur hægt og rólega. Jakkafötin bóndans eru næstum tilbúin, og frúin er búin að panta sér kjól. Þá vantar hana bara skó. Auður Elín er búin að fá lánaðan voða fínan kjól og vantar líka bara skó. Þetta er nú einn stærsti höfuðverkurinn svo það verður gott þegar þetta er komið á hreint. Þetta verður voða spennandi.

Jæja best að fara að henda sér í sófann.

Kveðja

Gummi, Ragga og gengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband