19.5.2013 | 18:13
Fastir liðir eins og venjulega
Kæru bloggvinir
Hér hefur allt gengið sinn vanagang. Það hefur verið mjög heitt nokkra daga í síðustu viku, og aðra daga heldur kalt. En vorið virðist vera komið til að vera.
Á föstudagskvöldið fórum við í kvöldmat í bæ hér í nágrenninu. Þetta er skipulagt fyrir útlendinga í nágrenninu, en við vorum nú einu útlendingarnir. Þetta var þó mjög huggulegt og við förum örugglega aftur. Þetta er einu sinni í mánuði. Auður skemmti sér konunglega og lék við einhverjar stelpur allan tímann. Hún er allt í einu hætt að vera feimin við önnur börn og fer yfirleitt bara beint til barna og spyr hvort þau vilji leika. Það er engin smá breyting. Hún hefur verið hálfhrædd við ókunnug börn hingað til. Hún er voða ánægð með að geta leikið við bestu vinkonu sína þegar hún er hjá pabba sínum hérna á móti. Vinkonan er alveg viðþolslaus að fá að leika við Auði þegar hún kemur til pabba síns. Þá skiptir engu máli hvort klukkan er 9 að kvöldi eða 7 að morgni á laugardegi.
Í gær fórum við á markað hér inn í Gram. Það var allt troðið af fólki, en við vorum bara að leita að ákveðnum hlutum, svo við vorum snögg og fórum nú aðallega til að leyfa Auði að prófa tívolítækin sem voru þarna. Henni finnst það alveg rosalega gaman. Það er nú sennilega bið á að það komi svona tívolí aftur hér í nágrennið. En spurningin er hvort við verðum ekki að fara í einhvern skemmtigarð með hana í sumar.
Í dag var svo tekið til hendinni og tekið til hér á ganginum á bak við. Það hefur lengi staðið til, en maður nennir því ekki þegar það er svona kalt. Við komum kanínunni okkar á annað heimili þar sem eru fleiri kanínur. Hann hélst ekki heima, svo það var orðið voða vesen að hafa hann. Hann er víst voða ánægður með nýju heimkynnin. Það er ótrúlegt hvað það að taka til gerir mikið fyrir sálina. Þetta var búið að fara verulega í taugarnar á manni að geta ekki gengið almennilega um. Svo er stefnt á að reyna að skipta um þak á ganginum í sumar. Við erum búin að fá gefins plötur, svona bara til að gera þetta vatnsþétt. Þá er hægt að nýta þetta betur. Núna er þetta hálflekt og opið.
Eftir hádegið var okkur svo boðið í kaffi hjá bónusömmu krakkana. Hún hefur aðgang að stóru hestabýli hérna rétt hjá. Svo Auður fékk bæði að sjá hesta og pínulitla hvolpa. Það þótti henni nú ekki slæmt. Ágúst hefur verið frekar pirraður undanfarið. Frúin heldur alltaf að það séu að koma tennur, en ekkert bólar á þeim ennþá.
Jæja þetta var víst það helsta úr liðinni viku.
kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Mig vantar sunnudagspistilinn.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 27.5.2013 kl. 22:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.