Hjólaæfingar

Kæru bloggvinir

Hér er vorið eitthvað að rembast við að koma. En það er oft voða mikið rok. Það hefur verið þannig hér síðustu árin. En það er allavega eitthvað að hlýna. Frúin var farin að vera áhyggjufull um að kartöflugrösin myndu ekkert koma upp, en það virðist eitthvað vera að rætast úr þessu. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu.

Hér hefur verið nóg að gera síðustu daga eins og venjulega. Í gær fórum við í smá verslunarleiðangur. Bóndann vantaði skyrtu og bindi. Það er búið að redda því. Frúin er búin að kaupa sér spennitreyju, til að vera í, undir kjólnum, svo hana vantar ekkert. Búin að fá kjólinn og hann er voða fínn. Börnin eru búin að fá sín föt. Það rann upp fyrir frúnni að þetta er bara alveg að skella á, svo það gaf smá stress. En þetta hlýtur nú allt að reddast. Við þurfum að fara á morgun og fá tímabundinn passa fyrir Ágúst. Við þurfum að keyra ansi langt eftir því, því það er búið að loka sendiráðunum sem voru næst okkur. En það er sennilega verið að spara þar eins og annars staðar. Það er allavega gott að þurfa ekki að keyra lengra.

Í dag var svo ráðist í að klára að grafa trambolínið niður. Þetta var nú ekki eins mikið mál og við höfðum reiknað með og allavega gott að vera búin að þessu. Nú þarf svo bara að fá lánaða litla gröfu til að jafna út moldina sem er eftir og þá er hægt að slétta blettinn í leiðinni. Það er alveg ótrúlegt hvað það kemur mikið rusl upp úr garðinum. Við erum búin að gefast upp á að hirða þetta allt, svo við grófum nú bara eitthvað af því niður aftur.

Auður Elín kemur oft með mjög skemmtilegar athugasemdir þessa dagana. Hún sá blóm í potti um daginn og spurði hvort frúnni fyndist þau ekki smart. Frúin átti nú bágt með sig. Hún tilkynnti líka um daginn að hún væri ástfangin. Það byrjar snemma. En það er víst allt búið. Fljótt skipast veður í lofti. Hún tilkynnti um daginn að hún vildi hætta að leggja sig í leikskólanum, hætta með snuddu og bleiu á nóttinni. Hún er hætt að leggja sig og það gengur bara fínt. Hún sefur alla nóttina og er farin að sofa til kl. 7 á morgnana í staðinn fyrir kl. 6. Hún svaf sína fyrstu nótt í nótt án bleiu og pissaði undir. En það verður bara að prófa áfram og sjá hvort þetta gengur ekki upp. Þá er bara snuddan eftir. Það verður sennilega það versta.

Ágúst er farin í megrun eftir að hann fékk að vita að hann væri orðinn of búttaður. Hann er aðeins farin að fá kjöt, en er voðalega mikill gikkur. Hann verður ægilega pirraður ef það eru einhverjir kekkir í matnum. Við hlægjum nú stundum að honum þegar hann tekur aríur. Hann er nú oftast í góðu skapi og brosir óspart.

Frúin tók upp á því í vikunni að hjóla inn til Gram og sækja Auði í leikskólann. Þetta eru 3 km, og töluvert upp í móti á okkar mælikvarða. Það er því ansi strembið. En þetta hlýtur að venjast. Börnunum líkar þetta allavega vel.

Jæja best að fara að slaka á eftir erfiði dagsins

kveðja

Moldvörpurnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband