Hvíldardagur

Kæru bloggvinir

hér skiptast ekki á skin og skúrir, heldur hiti og kuldi. Það hefur ekki rignt hér í mánuð og það er allt að skrælna. Bændurnir verða að vökva túnin svo það skrælni ekki allt, því það er mjög heitt hér á köflum. Í dag er hins vegar skýjað og frekar kalt. Þetta er ávísun á að börnin verði kvefuð og sérstaklega Ágúst Ægir hefur verið kvefaður. Hann hefur því verið pínu rellinn undanfarið. Við fundum svo tönn í fyrradag, sem eflaust hefur ekki hjálpað upp á. Hann sefur frekar órólega, en er svo sem ekkert að væla. 

Á miðvikudaginn var þjóðhátíðardagur Dana og bóndinn var í fríi og leikskólinn var lokaður. Við höfðum ekkert búist við að bóndinn yrði í fríi svo við vorum ekki búin að plana neitt. Það var því lítið gert þann daginn, annað en að sleikja sólina. Það var alveg rosalega gott veður þann daginn og mjög heitt. Við vorum greinilega ekki búin að átta okkur á hitanum og Auður fékk ekki nóg að drekka þann daginn. Hún vaknaði því á 2 tíma fresti um nóttina og vildi fá að drekka. Ágúst vaknaði svipað oft því hann var svo stíflaður í nefinu að hann var alltaf að vakna. Skemmtileg nótt það. Frúin prísar sínum sæla fyrir að það eru ekki margar svoleiðis nætur. Auður er að venja sig af að sofa með bleiu á nóttinni og það gengur bara nokkuð vel. Bara verið nokkur óhöpp. Nú er svo bara eftir að hætta með snudduna á nóttinni. Hún er sjálf mjög upptekin af því að hætta þessu, svo þetta á nú sennilega allt eftir að heppnast.

Á föstudaginn fór frúin í vinnupartý. Það var mjög huggulegt, en frúin er hins vegar ekkert mjög spennt fyrir að þurfa að fara að stressa af stað á morgnana til að koma börnunum í pössun og svo í vinnu. En það er líklegt að þetta hafist allt saman. Maður þarf bara að komast inn í rútínu aftur.

Í gær var ráðist í að klippa hekkið í garðinum. Þetta er nú orðið auðveldara eftir að hekkin voru klippt niður í viðráðanlegri hæð. En þetta er nú samt alltaf töluverð vinna. Bóndinn er allavega búinn á því í skrokknum í dag, svo við ætlum nú bara að taka því rólega í dag. Eða svona eins og hægt er. Bóndinn á nú frekar erfitt með það, svo við finnum örugglega eitthvað að dunda okkur við. 

Þetta er nú víst um það bil það sem á daga okkur hefur drifið síðustu vikuna. Það er allt að verða klárt fyrir brúðkaupið. Óli vinur okkar sem býr hér í Danmörku en er á Íslandi að vinna núna, hefur verið mjög duglegur að redda fólki í hin ýmsu verkefni. Það verður nú örugglega eitthvað eftir þegar við komum heim. Þetta er allt að skella á. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt.

Jæja best að fara að hvíla sig! :)

kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband