25.8.2013 | 08:48
Update frá vígvellinum
Kæru bloggvinir
ákvað að gera smá update á lífinu hér í Tiset. Það hefur verið ansi mikið að gera síðan við komum frá Íslandi. Frúin byrjaði að vinna aftur og þó hún sé ekki í fullri vinnu, þá er auðvitað heilmikil vinna að fá þetta allt til að ganga upp. Bóndinn er kominn með nýtt vaktaplan, sem þýðir að við höfum verið að vakna klukkan 5 á hverjum morgni, og hann hefur farið í vinnuna rétt fyrir 6. Frúin hefur því séð um að koma börnunum á fætur og í pössun. Það kemst svo sem upp í vana, en erfitt þegar maður er svona góðu vanur. Við keyptum fljótlega eftir komuna til DK, tjaldvagn og erum búin að fara í 2 útilegur. Það hefur nú bara gengið mjög vel. En það var ansi kalt á nóttinni í seinna skiptið, svo við þurfum að fá okkur einhvern rafmagsnofn eða eitthvað. Vandamálið er svo bara að Danir eru ekki hrifnir af að maður noti of mikið rafmagn, en við prófum kannski ef við förum í aðra útilegu fyrir veturinn.
Annað sem ekki er alveg eins skemmtilegt er að þegar við komum heim byrjaði gólfið í eldhúsinu að gefa eftir. Gummi reif gólfið upp og þá kom í ljós að það var vatnsleki undir vaskinum og gólfið var byrjað að molna. Tryggingarfélagið mætti og reif eldhúsið út, og byrjuðu að rífa gólfið upp. Þá kom í ljós að það var kominn einhver sveppur í gólfið, sem var búinn að breiða sig um mestallt gólf. Þá hófst rekistefna hjá Tryggingarfélaginu og á meðan fengum við eldhúsvagn í innkeyrsluna. Þetta var nú frekar mikið vesen að sofa í húsinu og elda í innkeyrslunni, svo við fengum að flytja inn til vinafólks okkar. Nú er svo búið að rífa gólfið upp og næst á dagskrá er svo að byggja upp nýtt gólf. VIð erum að vona við getum látið steypa plötu undir, svo við lendum ekki í þessum svepp aftur. En annars erum við tryggð svoleiðis að þeir eitra fyrir sveppinum og setja aftur gólf. Bara spurning hvernig gólfið verður. Það var á dagskránni að safna fyrir því að rífa gólfið upp og steypa undir og setja gólfhita.
Ágúst Ægir byrjaði hjá dagmömmu í byrjun ágúst. Hann hefur tekið þessu með mikilli ró. Er alveg sama þó mamma hans skilji hann eftir og er alveg að bræða dagmömmuna. Auður er himinlifandi yfir að vera byrjuð í leikskólanum aftur og vill helst fara þangað kl. 7 á morgnana og vera þar, þar til lokar. Ágúst er orðinn voða duglegur að skríða og stendur upp við allt og reynir að feta sig áfram.
Auður er orðin rosa dugleg að teikna og mála og þetta er farið að líkjast einhverju. Ekki bara eitthvað krass.
Á morgun flytjum við svo í sumarhús ca. 15 km fyrir sunnan okkur. Það verður pínu vesen að þurfa að keyra lengra til að komast í vinnu, en frábært að fá hús til að búa í og geta verið út af fyrir okkur.
Jæja best að láta þetta nægja af hrakföllum okkar. Veit ekki hvernig tölvusambandið er í sumarbústaðnum, svo ég veit ekki hversu mikið við verðum í samskiptum við umheiminn.
kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Heil og sæl !!
Mikið er gott að "heyra" frá ykkur en leiðinlegt að heyra um allt þetta mygluvesen. Vonandi líður ekki langi tími þangað til þið getið flutt inn aftur. Héðan er allt gott að frétta, við farin að vinna og allt að komast í sinn vanagang.
Góðar kveðjur frá öllum héðan.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 25.8.2013 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.