Haustveður og kartöfluupptaka

Kæru bloggvinir

þá er víst ekki hægt að segja annað en að haustið sé komið. Það er farið að vera ansi vætusamt og heldur kalt. En það er auðvitað ekki við öðru að búast. Við höfum fengið mjög gott sumar, svo við getum ekki kvartað.

Það er búið að steypa gólf í húsinu okkar og leggja gólfhita. En það þarf að þorna í minnst 2 vikur áður en hægt er að setja parket á. Og það þarf að líða mánuður áður en það má setja hita á gólfið. Svo við búum í sumarbústað í allavega mánuð ennþá. En þetta hlýtur að verða alveg svakalega fínt þegar við getum flutt inn aftur. Maður á örugglega eftir að vera þakklátari fyrir ýmsa smáhluti. Okkur fannst nú alveg nóg að við þyrftum að standa í þessu veseni í húsinu, en nú er bíllinn eitthvað að gefa sig. Hann á að fara í skoðun í nóvember, svo við erum að velta fyrir okkur hvort það borgi sig að gera við hann og reyna að koma honum í gegnum skoðun. Sjaldan er ein báran stök. Notaðir bílar hafa reyndar lækkað mikið í verði hér, en á móti kemur að það þarf að borga hærri þungaskatt, af því gömlu bílarnir eru ekki eins umhverfisvænir og sparneytnir. En þetta er allt í skoðun, þangað til verður að reyna að lappa eitthvað upp á þann gamla og reyna að keyra hann út.

Við höfum verið mjög virk í félagslífinu um helgina. Á föstudaginn var vinamatur hérna rétt hjá. Við höfum verið með 3 sinnum áður. Þar hittist fólk, bæði Danir og útlendingar og borða saman. Þetta er voða huggulegt og kostar ekki neitt. Í gærkvöldi vorum við svo í 50 ára afmæli hjá íslenskri vinkonu okkar. Börnin voru pössuð og við vorum í partý frá kl. 16:00-24:00. Maður er nú að verða of gamall fyrir þetta næturbrölt. Partýið var ekki búið fyrr en kl. 6 í morgun. Þá vorum við að vakna aftur með börnunum.

Hér eru allir kvefaðir og bæði börn með slæman hósta. Það er nú venjan þegar fer að hausta og rakinn er svona mikill. Þetta er nú samt alltaf jafn leiðilegt. Annars eru þau nú ótrúlega hress. Við fórum í dag og skoðuðum kúabýli. Það var opið hús á mörgum sveitabýlum. Auði fannst þetta mjög skemmtilegt og Ágúst fylgdist vel með úr kerrunni sinni. 

Jæja þetta ætti að vera nóg í bili

kveðja

Gummi, Ragga og börn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband