Málningarvinna

Kæru bloggvinir

Þá er haustið komið fyrir alvöru, með rigningu og roki. Það er heldur farið að kólna, sérstaklega á nóttinni. Bóndinn er ekki enn búinn að gefast upp á stuttbuxunum, en það er nú horft ansi mikið á hann þegar hann birtist í þeim. Hér eru allir búnir að pakka sumarfötunum niður og dettur ekki í hug að fara að klæða sig í þau aftur. Frúin er líka búin að gefast upp á að vera berfætt og er komin í sokka. Þá er víst ekki aftur snúið. Verður að bíða fram á vor.

Það er búið að steypa og slípa gólfið í húsinu og búið að setja eldhúsinnréttinguna inn. Það var voða skrýtið að sjá þegar það var komið gólf og innrétting í húsið. Svona þegar maður er búinn að sjá þetta með moldargólfi í nokkrar vikur. Það þarf að bíða eitthvað lengur áður en gólfið er sett, af því steypan má ekki vera rök. Manni fyndist nú meira vit í að leggja gólfið fyrst og setja innréttinguna upp eftir það. En þeir hljóta að vita hvað þeir eru að gera. Bóndinn er búinn að vera á fullu að mála. Við ákváðum að mála í ljósum lit í þetta skiptið. Það er enginn smá munur. Það hefði þurft að setja nýtt veggfóður, af því það eru göt eftir ofnana og rörin sem voru á veggjunum. En það verður ekki ráðist í það núna. Planið er svo að reyna að klára að ganga frá gluggunum í stofunni líka, svona fyrst við erum komin í gang. Þegar öllu er á botninn hvolft fáum við vonandi mun meiri hita í húsið og betra gólf. En þetta var kannski ekki alveg á fjárhagsáætlun núna.

Bóndinn og Auður Elín eru væntanleg til Íslands í nokkra daga núna í byrjun október. Helga Rut er að fara að skíra strákinn sinn og bóndann langaði auðvitað að sjá kappann. Það var ákveðið að leyfa Auði að fara með, af því henni finnst nú svo gaman að fara í flugvél og svo langar hana að sjá nýja frændann. Henni finnst þetta nú pínu skrýtið. Frúin og Ágúst verða bara heima. Eftir brúðkaup og nýtt gólf, þá er ekki mikill peningur eftir á reikningum. Það er vonandi að við verðum flutt í Tiset áður en þau fara heim. Það er töluvert vesen að búa svona á tveimur stöðum og extra keyrsla. 

Börnin eru að þroskast voða mikið þessa dagana. Ágúst skríður út um allt og reynir að standa upp alls staðar. Hann gleymir svo nokkrum sinnum að halda í og dettur á bossann. En hann er nú ekkert að gráta of lengi yfir því. Hann er gríðarlega hrifin af ryksugum og rannsakar þær í bak og fyrir. Auður er að verða svaka mikil skvísa. Hún vill gjarnan vera í buxum með einhverju punti á, eða í kjól. Hún er nú samt dálítið fyndin, af því í gær vorum við á flóamarkaði. Þar var kassi með alls konar dóti, og hún mátti velja 2 hluti. Hún valdi 2 risaeðlur. Hún hefði getað valið dúkkur, en nei, risaeðlur, það var það sem hún vildi. Hún syngur voða mikið og er fljót að læra texta. Hún syngur oftast sömu lögin og það getur nú orðið pínu þreytandi. En við erum byrjuð að hlusta á geisladisk í bílnum svona til að auka eitthvað úrvalið.

Bíllinn gaf upp öndina á þriðjudaginn, eða það héldum við. En svo hringdum við eftir vegahjálp og hann kom og skipti um kveikjulok og eftir það gengur hann betur. Nú eru það svo bara bremsurnar sem eru að verða búnar. En ef við skiptum um þær ætti þetta nú að fara að koma. Við vonum það besta. Við erum komin í samband við bifvélavirkja sem er tilbúinn að gera hann kláran fyrir skoðun og við vonum að það gangi eftir. 

Jæja það er víst ekki mikið annað í fréttum hér að sinni.

kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband