27.10.2013 | 15:53
Haustveður
Kæru bloggvinir
eftir óvenju hlýjan og mildan októbermánuð hefur verið ekta haustveður í dag. Rok og rigning og laufblaðaskafrenningur. Það er ókosturinn við að búa svona nálægt skóginum. Það fyllist allt af blöðum hér á haustin.
Hér hefur svo sem ekkert verið slegið slöku við hér undanfarið. Ótrúlegt hvað tíminn flýgur og maður nær aldrei öllu sem maður ætlar sér. Þeir komu loksins á föstudaginn og löguðu uppþvottavélina. Maður er orðinn svo vanur að hún opnist ekki alveg, að maður gleymir að hún opnast eðlilega núna. Það má segja að þetta sé algjör lúksus að geta notað hana aftur. Svo nú er þetta allt saman að færast í eðlilegt horf. Bóndinn er að vinna í að klára að lakka gluggapóstana og setja lista. Þetta kemur allt saman með kalda vatninu. Við vonum allavega að það komi ekki fleiri vatnsskaðar í bráð.
Heilsufarið á bænum hefur verið heldur dapurt. Ágúst er búin að vera með hita síðan á miðvikudag og er enn með einhverja hitavellu. Hann er kominn með tvær tennur, sem gæti verið hluti af skýringunni, en hann er líka búinn að vera voða kvefaður og systir hans líka. Þau eru bæði komin með astmapúst aftur. Þetta er nu´samt allt í áttina. Auður fór bæði í sund og leikfimi í vikunni og var mjög sátt við það. Ágúst er byrjaður að reyna fyrir sér með að bíta. Það vekur nú litla hrifningu. En þetta þarf víst að prófa. Hann hermir eftir manni og finnst það rosa fyndið og ætlast auðvitað til að við hlægjum að vitleysunni.
Þeir breyttu klukkunni í nótt, sem þýddi að börnin vöknuðu klukkutíma fyrir áætlun. Ágúst vaknaði kl. 4 og vakti systur sína. Hún sofnaði þó aftur í smástund. Þetta hringl gerir blessuð börnin bara pirruð, þeir mættu alveg sleppa þessu okkar vegna. Auður Elín er mjög afbrýðisöm út í bróðir sinn þessa dagana og vill helst gera allt sem hann er að gera og rífa af honum dótið. Það eru einhver uppgjör í stelpuhópnum á leikskólanum núna. Það pirrar hana líka. Hún fær ekki alltaf að vera með og er voða leið yfir því. En hún er nú heldur ekki alltaf svo góð við hin börnin. Þau þurfa að læra þetta allt saman. Fóstrurnar eru nú yfirleitt góðar að skerast í leikinn og hjálpa til.
Jæja ætli þetta dugi ekki í bili
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.