Jólaundirbúningur

Kæru bloggvinir

hér hefur verið vorveður um helgina. Við erum bæði búin að fara í göngutúr og gefa hestunum brauð og fara á róló. Auði finnst voða gaman að dunda sér úti, en nennir ekki að vera lengi ef hún er ein.

Við fórum í leiðangur á föstudaginn og duttum niður á´nokkrar jólagjafir. Alltaf gott að byrja snemma á svoleiðis, þegar maður þarf að senda pakkana til Íslands. Svo er búið að panta jólakort, svo þetta er allt í rétta átt. Bóndann er farið að klægja í fingurna að fara að skreyta. En ætli maður reyni nú ekki að halda honum í skinninu þar til eftir afmælið hjá Ágústi Ægi. Eins gott maður átti ekki barnið nær jólum. Það væri nú meira stressið. Það er búið að versla inn smá afmælisgjöf handa honum. Hann hefur erft mest af dótinu sem systir hans lék sér með, svo hann vantar ekki neitt sérstaklega mikið dót. Hann tekur þessu nú með mikilli ró. Er farinn að labba meira með stuðningi, en er nú samt ekkert að stressa sig á því, af því hann skríður svo hratt. Honum finnst það ábyggilega mikið minna mál. En það hlýtur að koma að því að hann sleppi sér. Hann æfir sig mikið að labba í sundi. Það er bara svolítið skrýtið að vera svona léttur í vatninu.

Annars eru þau systkin eitthvað að lagast af kvefinu. Frúin hefur hins vegar verið hás og nánast raddlaus. Það voru heljarinnar vatnsskemmdir í vinnunni hjá frúnni á mánudaginn. Einhver rör undir gólfinu á 3. hæð gáfu sig og brutu sér leið gegnum gólfin í vinnunni. Það mátti því ekki hafa hita á skrifstofunum á mánudaginn, og frúin varð vel loppinn. Eftir þetta varð svo að setja inn vélar sem draga í sig rakann og þær draga greinilega líka rakann úr frúnni, því hún hefur verið alveg að skrælna meðan hún hefur verið í vinnunni. Vonandi fara þeir að verða búnir að hafa þessi rakatæki í gangi. Þetta er frekar óskemmtilegt. Kannski fylgir manni bara einhver óheillakráka, sem eyðileggur vatnsrör! :). 

Það var ráðist í það í dag að raka saman laufum hér í garðinum og á gangstéttinni. Þetta var heil kerrufylli. Það er ókosturinn við að búa nálægt skógi, það kemur svo mikið af laufi í innkeyrsluna og garðinn hjá okkur. Þetta lítur orðið út eins og hjá venjulegu fólki núna.

Ágúst Ægir ætlar að verða alveg jafn hrifinn af tónlist og systir sín. Hann dillar sér á fullu um leið og hann heyrir músik einhvers staðar. Við fórum á vinamat í föstudaginn og hann dillaði sér líka þegar við vorum að syngja sálma. Gerir greinilega ekki mikinn greinamun þar á. Það er alltaf einhver sem eldar mat. Síðast voru það arabar sem elduðu. Við buðumst til að elda. Nú þarf bara að finna út, hvað á að elda. Það þýðir ekki að bjóða Dönum upp á einhver séríslenskan mat. Þeir myndu örugglega ekki vilja borða sviðahausa, eða súra hrútspunga. Og hrossakjöt fæst ekki hér í nágrenninu. Enda ólíklegt að Guðsfólk vilji leggja sér það til munns. En við finnum nú örugglega eitthvað út úr því.

Það eru bæjarstjórnarkosningar hér á þriðjudaginn. Maður verður nú að reyna að kjósa eitthvað, það er nú ekki mikill munur á flokkunum. Þeir ætla allir að vinna fyrir fjölskyldufólkið. Finnst eins og ég hafi heyrt það áður. Kannski maður ákveði sig bara í klefanum.

Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband