1.12.2013 | 16:16
Jólasveinninn kominn til Tiset
Kæru bloggvinir
þá er búið að taka á móti jólasveininum í TIset. Hann kom að venju með karamellur og nammipoka fyrir börnin. Auður var voða spennt yfir þessu, en Ágúst skilur nú ekkert í þessu umstangi. Það var byrjað að skreyta aðeins í dag. Við sáum einn lítinn strák sem er sennilega ekki meira en 2 vikna. Það er voða skrýtið að hugsa til þess að fyrir ári síðan var Ágúst svona lítill
Það er mikill spenningur yfir öllu jólastússinu. Auður fékk jóladagatal með súkkulaði og svo annað sem er tengt sjónvarpsþætti fyrir börn. Þátturinn er reyndar sýndur kl. 8 á kvöldin. Það eru nú sennilega flest börn farinn að sofa á þeim tíma. En við verðum að reyna að fylgjast með hvenær það er endursýnt. Það er strax kominn voða mikill jólaspenningur í hana, svo það verður langt að bíða til jóla. Hún er nú samt ekkert að tala um hvað hana langar í. Þó hún sé að skoða bæklinga með alls konar jóladóti, þá er hún mest að pæla í hvað öðrum langar í. Enda nógur tími til að verða spenntur yfir því. Hún leikur sér nánast aldrei með dót, svo ekki er nú þörf á að fara að versla svoleiðis.
Annars hefur nú lítið borið annað til tíðinda hér. Við erum búin að kaupa og pakka niður jólagjöfum fyrir alla nema okkar börn. Það er ágætt að geta sent pakkana snemma til Íslands. Þá er kannski minni líkur á að þeir týnist í öllu jólapakkaflóðinu. Við ætlum nú að reyna að senda einhver jólakort líka, það er nú farið að skera það niður líka, því það er svo dýrt að senda með póstinum. En manni finnst nú engin jól án jólakorta.
Ágúst er á útopnu alla daga, hann ætlar ekki að vera minna virkur en systir sín. Hann tekur framförum í að labba, en vill nú ennþá halda sér í. Hann kemst líka mun hraðar yfir skríðandi en labbandi. Hann var voða ánægður að sjá nokkrar vinkonur sínar áðan, þegar við fórum að taka á móti jólasveininum. Hann vildi endilega kyssa þær og dansa fyrir þær. Það var nú mismikil hrifning hjá þeim. Hann er voða ánægður hjá dagmömmunni, sem betur fer. Auður er líka voða ánægð í leikskólanum. Hún spyr á hverjum degi, hvort hún eigi að fara í leikskólann. Við höfum verið að bíða eftir að Ágúst fengi fleiri tennur, því hann hefur verið eldrauður í andlitinu á kvöldin undanfarið. En ekkert bólar á neinu ennþá.
Í kvöld á svo að borða sviðahausa. Það eru vist ennþá nokkrir svoleiðis í frystinum. Um að gera að borða það á veturna. Ekki svo geðslegt að borða það á sumrin. Við ætlum að prófa að kaupa hamborgarahrygginn í Þýskalandi í ár. Hann er svona ca. helmingi ódýrari en hér í Danmörku og örugglega alveg jafn góður. Það er bara erfiðara að útskýra hvað maður vill á þýsku. Það er ekkert sem við erum sérstaklega fær í hjónin. En þá er bara að bjarga sér með fingramáli.
Jæja best að fara að undirbúa matinn
kveðja úr jólabænum
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Athugasemdir
Sæl öll
Kvitti kvitt, alltaf gaman að lesa fréttir frá ykkur.
Kær kveðja úr Garðinum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 4.12.2013 kl. 15:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.