15.12.2013 | 16:02
Jólaball
KÆru bloggvinir
það er alltaf nóg að gera hér á bæ. Við fórum á jólaball í leikskólanum hjá Auði. Þar var dansað kringum jólatréð og það kom jólasveinn, sem þó hafði gleymt að fara í buxur og var bara í einhverri kápu. Þetta þótti dóttur okkar ákaflega merkilegt. Við sögðum að hann hefði týnt buxunum í rokinu um daginn. Það hafa svo komið jólasveinar hér á hverjum morgni og sett eitthvað í skóinn hennar. Í morgun fékk hún bara mandarínu og bréf frá jólasveininum. Hann var ekki alveg hress með að hún gleymdi að gegna foreldrum sínum. Hún var voða skúffuð yfir þessu og baðst afsökunar.
Á föstudaginn elduðum við mat fyrir vinakvöldmat. Það voru allir voða ánægðir og borðuðu 6 kg af kjöti og helling af grænmeti. Það er alltaf mjög huggulegt að vera með í þessu. Í gær hittumst við svo nokkrir Íslendingar og slógum upp íslensku jólaballi. Það var dansað krigum jólatréð og jólasveininn kom í heimsókn. Auður var fljót að fatta að þetta væri Óli vinur okkar. En lét ekki á neinu bera. Var bara mjög sátt við að fá nammipoka. Það var voða gaman að ganga kringum jólatréð og syngja íslensk jólalög. Það er ekki það sama og þessi dönsku jólaböll, af því maður þekkir ekki jólalögin á sama hátt. Auður hafði á því orð þegar við vorum á leiðinni heim að það hefði verið skrýtið að þessi jólasveinn í gær, hafði verið í buxum. Eins gott að hún fari ekki að tala við aðra um buxnalausa jólasveina.
Í morgun var svo farið til Kolding í brunch hjá fyrrverandi vinnufélaga frúarinnar. Það er orðið mjög langt síðan við hittumst, svo það var auðvitað voða gaman. Eftir þetta allt saman erum við svo búin að reyna að slaka aðeins á. Nú er aðeins ein vinnuvika eftir fram að jólum. Það verður fínt að fá smá frí.
Ágúst Ægir er farin að labba aðeins sjálfur, en bara nokkur skref og svo dettur hann. En þetta kemur örugglega mjög fljótlega. Það er svo sem ágætt að hann fer ekki út um allt, hann getur þá ekki tætt eins mikið.
Við erum að verða klár fyrir jólin. Vantar ennþá jólatréð, en það er verið að vinna í að redda því. Kunningar okkar eru að fara að fella tré og ætla að saga ofan af því handa okkur. Við getum nú ekki haft stórt tré. Það er nú mjög líklegt að sonur okkar tæti skrautið af því. Svo við reynum sennilega að setja ómerkilegt skraut neðst.Þetta er eins og vera með kött á heimilinu.
Kveðja
Tisetgengið sem reynir að komast í jólaskapið þrátt fyrir hita og gott veður
Athugasemdir
Heil og sæl
Er hiti hjá ykkur, hér er sko ekta jólaveður, snjóaði í gær og nótt og allt hvítt. Vonandi helst snjórinn nú kyrr fari ekki að fjúka um allar trissur og gera manni lífið leitt. Jólaundirbúningurinn gengur hægt en allt hefst þetta nú á endanum. Heyrum vonandi frá ykkur um jólin.
Jólakveðjur úr snjónum í Garðinum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 15.12.2013 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.