Jólafrí

Kæru bloggvinir

þá eru allir komnir í jólafrí hér á bæ. Auður er strax farin að tala um að hún sakni leikskólans. Hún er svoddan rútínupúki að hún vill helst hafa allt í sömu skorðum. Hún er ekkert búin að tala um pakkana og aðfangadag. Kannski er hún ekki orðin nógu gömul til að fatta hvað þetta gengur allt út á. Hún er allavega búin að finna út úr því að ef maður er óþægur þá fær maður kartöflu í skóinn. Hún þorir ekki sjálf að kíkja í skóinn á morgnana. Ætli hún haldi ekki að jólasveinninn standi bak við gardínuna. Hún fræddi okkur á því um daginn að ein stelpan á deildinni hennar væri að fara að fá nýjan pabba. Við urðum eitthvað hvumsa, en þá sagði hún að pabbi stelpunnar væri í fangelsi og hún þyrfti því að fá nýjan pabba. Hún fræddi pabba sinn á því að ef hann færi í fangelsi þá myndi mamma hennar fá sér nýjan mann. Já einmitt. Hún var nú ekki alveg með á hreinu hvað fangelsi er, en vissi nú samt að ef maður væri í fangelsi, þá væri maður langt í burtu. Hún er voða mikið að spá og spekúlera þessa dagana. Komin á hvers vegna aldurinn. 

Við fórum og ætluðum að komast í jólastuð í dag í jólabæ, ekki langt hérna frá. Það gekk nú eitthvað illa. Við vorum ekki nógu vel klædd. Það stóð 7 stiga hiti á mælinum, en það var rok svo við vorum hálf loppin. Það er ekkert jólalegt hérna, rigning og rok flesta daga. Svo jólaskapið fór fyrir lítið. En Auður hitti bæði jólasveininn og jór í jólalest, svo hún var víst bara sátt við sitt. Ágúst skildi nú lítið af þessu öllu. Hann er eitthvað voða pirraður greyið, er örugglega að fá einhverja jaxla. 

Við erum nú bara að verða klár fyrir jólin. Vantar að kaupa inn á morgun og svo erum við klár. Erum nokkuð svekkt yfir að fá hvorki skötu né hangikjöt í ár. En við verðum að láta okkur nægja þýskan hamborgarahrygg og nýsjálenskt lambalæri. Ekki hægt að segja annað en að við séum alþjóðleg.

En allavega ætli þetta sé ekki orðið gott í bili

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ, hæ!

Hér rignir líka en svo er von á brjáluðu veðri alls staðar á landinu í nótt og næstu daga. Við erum búin að fara í skötu hjá bróður mínu og erum að elda hangikjötið. Steinunn er búin að vera  hjá okkur í viku, henni tókst að ökklabrjóta sig og trillar bara um á jólastól.   Hér er allt í rólegheitum og krakkarnir eru að fara að skreyta jólatré. Það er hefð að þau geri það á Þorláksmessu.

Allir senda jólakveðju.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 23.12.2013 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband