30.12.2013 | 13:36
Partýstand
Kæru bloggvinir
hér hefur verið heilmikið að gera undanfarið. Við héldum jólin hérna heima bara 4. Það var voðalega notalegt og ekkert stress. Elduðum rosa góðan mat og átum á okkur gat. Auður var víst ekki alveg að skilja þetta með pakkana. En á aðfangadag fór hún að verða spennt yfir þessu með pakkana. Hún vildi endilega aðstoða bróðir sinn við að opna pakkana, en hann var nú ekki eins hrifinn af þeirri hugmynd. En allt gekk þetta nú átakalaust fyrir sig. Í byrjun jólafrísins vöknuðu börnin kl. 5 og 6 á hverjum morgni, en þau eru nú greinilega að komast í þjálfun því þau eru farin að sofa lengur. Auður Elín svaf til kl. 9 í morgun. Hún verður eitthvað hress að fara að vakna í leikskólann aftur á fimmtudaginn. Hún vaknaði með ekka eitt kvöldið, og sagði að það væri af því hún saknaði svo vinkonu sinnar á leikskólanum. Hún hefur svo ekki talað um það síðan. Hún er voða mikill rútínupúki og vill helst hafa allt eins alla daga.
Á annan í jólum hittumst við heima hjá öðru íslensku pari hérna rétt hjá og borðuðum saman, ásamt tveimur öðrum hjónum. Börnin borðuðu með okkur og fóru svo heim að sofa. En við urðum eftir og djömmuðum eitthvað frameftir. Eva gamla var hjá þeim. Þetta var mjög huggulegt og vonandi að það verði stemning fyrir þessu aftur á næsta ári.
Á laugardaginn var svo farið í lítið leikjaland með Auði. Henni hefur langað að fara í tívolí voða lengi. En það er allt lokað um jólin, svo þetta var sárabót. Hún var voða ánægð, en þorði nú ekki að prófa neitt sérstaklega mikið. Hún er ekki neitt óskaplega kjörkuð. Í gær renndum við svo í heimsókn til vina okkar í Odense. Bóndinn og Óli þurftu að horfa á fótbolta. Leikurinn var ekki fyrr en kl. 17:00 svo við borðuðum kvöldmat þar og keyrðum svo heim Við vorum ekki komin heim fyrr en kl. 21:00, svo þess vegna nennti frúin ekki að blogga þegar hún kom heim. Auður Elín og Arndís eru orðnar voða duglegar að leika sér saman og það heyrðist varla í þeim í gær. Hún var líka verulega þreytt. Sofnaði um leið og við komum í bílinn og svaf alla leiðina heim. Hún vildi svo endilega fara með pabba sínum og kaupa sprengjur áðan. Hún er nú hálfhrædd við eþtta, en finnst eflaust sport að vera með pabba sínum. Hún er hætt að vera alveg eins mikil mömmustelpa og hún var. Á móti kemur að Ágúst er í einhverju voða mömmustuði þessa dagana og fer að gráta í hvert skipti sem hún hverfur úr augnsýn. En ætli það vaxi ekki fljótt af honum. Hann er farinn að taka fleiri og fleiri skref óstuddur, en er eitthvað ragur við þetta ennþá. Hann vill kannski bara vera alveg viss um að hann kunni þetta, áður en hann kastar sér út í þetta fyrir alvöru.
Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili.
Gleðilegt ár allir saman og gangið hægt um gleðinnar dyr.
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.