Áramótablogg

Kæru bloggvinir

gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það liðna. Við erum komin nokkuð vel í gegnum jól og áramót, án stórra vandkvæða. Við vorum með vinum okkar á áramótunum, heima hjá þeim og gistum bara, af því að það var of mikið vesen að fara að rífa börnin upp úr rúmunum og keyra þau heim. Við borðuðum góðan mat og horfðum svo á íslenskt sjónvarpsefni gegnum tölvuna. Þetta var ljómandi fínt. Börnin sváfu svo auðvitað ekkert of lengi á nýársdag, svo við fórum snemma heim til okkar. Frúin fór svo í vinnuna fimmtudag og föstudag. Ákvað að það væri fínt að byrja á stuttri viku. Auður fór í leikskólann. Hennar leikskóli var lokaður, svo hún fór í annan leikskóla. Það var mjög spennandi að leika með allt nýja dót og besta vinkona hennar var þar líka, svo hún var nokkuð sátt. Hún var búin að tala um það nokkrum sinnum að hana langaði að fara í leikskólann. Hún fer svo í sinn venjulega leikskóla á morgun. Þá fer þetta nú allt að komast í rétt horf. 

Í dag erum við svo búin að vera að pakka niður jólaskrautinu. Það er alltaf voðalega tómlegt að taka þetta niður, en samt einhvern veginn líka ákveðinn léttir. Nú þarf maður bara smá tíma til að venjast því að það sé ekki neitt skraut.
Hér er alltaf rigning og frekar hlýtt, svo ekki getum við sagt að veturinn hafi verið harður hingað til. En það getur nú náð að breytast. Þetta passar okkur fínt. En það væri auðvitað meiri birta, ef það væri snjór. En það lamast bara allt hérna þegar kemur snjór, svo það er best að sleppa því bara.

Ágúst er búin að fatta að hann getur hermt eftir, þegar við gerum einhver hljóð. Það er hin mesta skemmtun. Hann var víst mjög fegin að komast aftur til dagmömmunnar og fá einhverja krakka að leika við. 

Við héldum að ungbarnasundið byrjaði í gær og drifum okkur af stað, en svo kom í ljós að það byrjar fyrst næsta laugardag. Við fórum því í næsta bæ og fórum í sund þar. Það var mjög fínt og ágætis laug. Börnunum fannst þetta hið besta mál allavega. 

Jæja best að reyna að slaka á og safna kröftum fyrir næstu vinnuviku sem verður heil vinnuvika. Annars er nú ekki langt í að við höfum vikufrí. Það er í byrjun febrúar. Ágætt að hafa eitthvað að stefna að!

kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband