19.1.2014 | 15:40
Kuldaboli
Kæru bloggvinir
hér hefur eitthvað verið að kólna. Það er ennþá hitagráður, en hífandi rok, svo það er ansi napurt. Ég veit ekki hvort þeir eru að spá þessu eitthvað áfram. Það hefur snjóað hérna fyrir norðan okkur, en við höfum sloppið ennþá. Það er nú samt aðeins farið að birta á morgnana og það hjálpar nú heilmikið. Það kemur nú varla mikill vetur úr þessu.
Annars er nú heldur lítið að frétta af okkur hérna. Allt við það sama. Börnin eru auðvitað með hor eins og venjulega og með hósta. Læknirinn skilur ekkert í þessu. Hún ætlar að senda Ágúst til einhvers sérfræðings til að sjá hvort hún finni eitthvað út úr þessu. Drengurinn er búinn að vera rauður í framan eins og lendingarljós síðustu vikurnar og voða rellinn, en ekkert bólaði á tönnunum. Við vorum alveg hætt að kíkja eftir þeim. Svo sá frúin einn daginn að það glitti í þrjá jaxla. Þeir eru ekki alveg komnir niður, en á leiðinni. Ekki skrýtið hann hafi verið eitthvað pirraður. Það er vonandi að hann drífi þetta af bara núna, svo það þurfi ekki að vesenast með þetta meira. Auður Elín fékk sína alla í röð.
Annars eru þau systkin nú mjög ólík að flestu leyti. Ágúst er prílandi upp á öllu, og dettur sjaldan. Auður prilar líka og er alltaf að detta. Hún dettur um sjálfa sig oft á dag. Þau eru bæði mjög virk og geta alls ekki verið lengi kyrr. Þau eru aðeins orðin betri til að leika saman, en það gengur nú ekki alltaf. Það er svo sem ekkert skrýtið. Auður skilur ekki alltaf að hann er óviti og eyðileggur fyrir henni.
Við höfum aldrei þessu vant tekið því bara nokkuð rólega um helgina. Fórum í vinamat á föstudaginn. Þar komu 4 kolsvartir menn frá Suður-Súdan. Ágúst var hálfsmeykur við þá. Þeir voru eitthvað að reyna að bræða hann, en hann var ekki á þeim buxunum. Hann er nú annars varnur að brosa framan í alla. En það getur verið hann venjist þessu. Þeir tóku svo lagið. Sungu sálm á einhverri afrísku. Það var mjög flott, allavega mjög öðruvísi. Við erum að spá í að syngja sama sálm næst, á íslensku. Þá geta þeir heyrt muninn. Við erum búin að plata íslensku vini okkar til að koma með okkur á þessar samkomur, svo við ættum ekki að vera mikið verri að syngja en þeir. Frúin er nú ekki mikið fyrir að troða upp, en það getur verið að hún komist ekki undan því.
Ágúst er að verða ansi frakkur og uppátækjasamur. Hann skilur ekkert í því að hann má ekki allt það sem honum dettur í hug og verður mjög móðgaður. Finnst sjálfsagt bara eðlilegt að hann megi rífa allt og tæta.
Jæja frúin er eitthvað voðalega andlaus í dag.
Kveðjur frá Roklandi
Gummi, Ragga og börn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.