Þorrablót

Kæru bloggvinir

þá erum við hjónakornin búin að blóta þorra. Það var gert í gær í bæ sem er ca. 40 km hér frá. Við fórum þangað líka fyrir 2 árum síðan. Fórum ekki í fyrra af því þá var Ágúst svo lítill. Þetta var hin fínasta skemmtun. Góður matur og góður söngur. Frúin söng svo mikið að hún missti röddina. Það voru svo einhverjir tveir strákar að spila, það var svo tilbreytingalítið að við vorum alveg að tapa okkur yfir því. En við fórum nú heim um miðnætti. Það er alveg sama hvert maður fer í Danmörku og hittir Íslendinga. Mjög margir af þeim eiga ættir að rekja á Suðurnesin. Maður er farinn að halda að helmingur Suðurnesjamanna hafi flutt til Danmerkur. 

Bóndinn er búinn að vera að vinna í að koma einhverju skikki á ljósmyndirnar. Þetta er nú töluverð vinna, svo þær koma ekki alveg strax á bloggið, en það er verið að vinna í þessu. Frúnni fannst við ekkert vera búin að taka margar myndir. En það var víst einhver vitleysa.

Frúin er búin að taka þá ákvörðun að reyna að venja Ágúst af að fá pela á kvöldin. Hann er farinn að borða svo mikinn mat, að það hlýtur að vera nóg. Hann vildi ekki pela hjá barnfóstrunni í gærkvöldi, en svaf samt í alla nótt. Við ætlum því að reyna að sjá hvort ekki sé hægt að venja hann af þessu. Það væri voða mikill munur. Hann hefur hingað til fengið mesta skemmtun af því að rífa allt og tæta. En það virðist vera að hann sé eitthvað að fatta að það sé hægt að byggja upp líka. Þau systkin fá annars mesta skemmtun úr því almennt að rífa allt og tæta og svo leika þau sér ekkert með það sem þau eru búin að róta út. Þau eru búin að vera algjörlega á útopnu um helgina og hafa átt voðalega erfitt með að gegna. Við fórum í dag og skoðuðum geitur og kindur í litlum dýragarði hérna rétt hjá. Auður hefur nú alltaf verið hálfsmeyk við þetta, en hún var voða brött í dag og þorði að gefa þeim úr lófanum. Við fórum í sund í gær og hún var eitthvað búin að tala um að hana langaði að prófa rennibrautina. Henni snérist þó hugur á miðri leið upp tröppurnar. En stóð svo og horfði á krakkana renna í smá stund og þorði svo að fara með mömmu sinni. Móðirin er nú ekkert óskaplega hrifin af svona fyrirbærum, en þessi reyndist nú nokkuð skaðlaus. Ekkert mjög brött. Þetta er alveg týpískt fyrir Auði, hún er með voðalega lítið hjarta, en svo allt í einu er hún tilbúin og við fórum örugglega 10 ferðir í rennibrautina í gær. Það getur verið maður geti platað hana til að fara sjálfa fljótlega.

Það hefur verið vorveður hér í dag og þeir eru eitthvað að spá því áfram. Það væri ekkert leiðilegt ef við þyrftum ekki að fá meiri vetur. En það er sennilega og fljótt að vonast eftir vorinu.

Jæja þetta var víst það helsta héðan úr Baunaveldi.

 kveðja

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband