16.2.2014 | 13:24
Vetrarfrí
Kæru bloggvinir
þá erum við búin að vera í vikufríi frá vinnunni. Við höfum nú svo sem ekki setið auðum höndum. Við kláruðum að setja lista í kringum gluggana, svo nú á bóndinn bara eftir að mála þá og þá er þetta eins og nýtt. Ótrúlegt hvað þetta breytir miklu, maður skilur ekki hvernig maður hefur lifað af að hafa þetta svona, svona lengi.
Veðrið hefur nú verið alveg ágætt. Dálítið kalt en samt fínasta veður. Við erum búin að útrétta alveg helling, en það er nú samt alltaf eins og það sé hellingur eftir. En gott að geta klárað eitthvað
Frúin var hálf slöpp í byrjun vikunnar. Hún hóstaði svo mikið að henni leist ekki á blikuna og endaði með að fara til læknis. Hún sagði að þetta væri bara vírus og Auður væri með það sama og með það vorum við sendar heim. Þetta er nú eitthvað að lagast. Auður er orðin ansi þreytt á að vera heima og vill endilega fara að komast í leikskólann. Hún fékk vinkonu sína í heimsókn í vikunni. Þær voru svaka duglegar að leika. Hún er byrjuð að fara í svona hálfgerðan sunnudagaskóla með þessari stelpu líka. Það eru reyndar ekki svo mörg skipti eftir, en síðast fannst henni þetta allavega mjög gaman. Þetta er eldra fólk sem syngur og leikur eitthvað við börnin. Ef þetta heppnast vel næstu tvö skipti, þá fer hún kannski aftur á næsta ári. Foreldrar þessarar stelpu eru frá Hollandi, en þau fluttu til Danmerkur fyrir 10 árum síðan og keyptu sér jörð og eru með kúabúskap. Þau eru voða vinaleg.
Ágúst er farin að reyna að tjá sig meira og meira. Maður skilur nú svo sem ekki mikið af því sem hann segir, annað en hæ og meira. Hann er algjör frekjudolla og tekur ægileg frekjuköst en er nú yfirleitt fljótur að verða góður aftur. Þau hafa nú verið ágæt að leika sér í fríinu en síðustu daga hefur nú eitthvað verið að slettast upp á vinskapinn. Þau þurfa að fara að komast í fasta ramma aftur.
Annað er nú víst ekki mikið til tíðinda héðan.
Kveðja frá Tiset
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.