23.2.2014 | 09:49
Sól í heiði
Kæru bloggvinir
hér skín sól í heiði, en það er nú ansi kalt, svo þetta er nú víst það sem maður kallar gluggaveður. Það hefur verið ágætis veður hér undanfarið og á víst bara að vera áfram. Við höfum ekki ennþá fengið almennilegt vetrarveður, og vonum bara að við sleppum við það. Það væri fínt okkar vegna.
Hér er allt komið í samt horf aftur eftir fríið. Auður var óskaplega ánægð með að komast aftur í leikskólann. Vinkona hennar kom líka í heimsókn í gær og þær léku sér heillengi uppi á lofti án þess að það væri neitt vesen. Hún er voða mikið að spá og spekulera þessa dagana. Ansi margt fróðlegt sem kemur frá henni. Þeir vilja meina í leikskólanum að hún eigi stundum svolítið erfitt með að finna réttu orðin, svo nú eigum við að þjálfa hana í því. Hún á að fá bók sem við límum inn í myndir hér að heiman og svo er hún með myndir frá leikskólanum og þannig á hún að æfa sig. Hún er nú ekki sú besta að sitja kyrr, en það lærist nú örugglega. Við mæðgurnar fórum í bíó í vetrarfríinu. Hún hafði ekki prófað það áður og fannst þetta auðvitað mjög merkilegt. Veit ekki hvort henni fannst meira spennandi að hún fékk sinn eiginn popppoka og smá nammipoka. En hún sat allavega grafkyrr í einn og hálfan klukkutíma. Það eru ekki hlé í bíó í Danmörku. Svo ef maður þarf að pissa, þá verður maður bara að læðast út. Henni fannst nú frekar skrýtið að hún fór í bíó á sama stað og þar sem við förum í sund. Daginn áður var hún svo í svona hoppikastala og alls konar dóti. Það gerist allt í íþróttahúsinu.
Á föstudaginn fórum við svo í vinakvöldverð sem við höfum verið að taka þátt í. Síðast þegar við fórum voru þar nokkrir mjög svartir menn frá Suður-Súdan sem sungu sálm á afrísku. Bóndanum og íslensku vinum okkar þótti því mikilvægt að við syngjum sama sálm á íslensku svo það varð úr. Þetta gekk nokkuð skammlaust fyrir sig. Við vorum nú ekki klöppuð upp, en það er sennilega eingöngu vegna þess að Suður-Jótar eru svo hógværir að þeir hafa ekki kunnað við það. Við ætlum svo að taka með okkur saltkjöt og baunir með næst. Það þarf að fara að leggja í salt.
Ágúst fékk bólusetningu á föstudaginn og varð ansi slappur af því. Hann var með hita í gær og alveg ómögulegur. Hann er nú ekki vanur að vera svona slappur. Hann er eitthvað hressari í dag. Hann á svo eina bólusetningu eftir og svo er ekki aftur fyrr en hann verður 4 ára. Hann er annars ekkert stressaður yfir svona stungum. Vælir smá og er svo bara orðinn eins og hann á að sér að vera. Ekki mikið mál að fara með þau systkin til læknis, sem betur fer.
Í dag er svo fyrsta öskudagsskemmtunin af mörgum. Auður er gríðarlega spennt, en Ágúst skilur ekkert í þessu. Vinir okkar koma frá Odense og þá geta Auður og Arndís farið saman. Það verður nú eitthvað fjör.
Jæja þetta er víst það sem helst hefur á daga okkar drifið
Kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Heil og sæl
Alltaf gaman að lesa sunnudagspistilinn frá ykkur.
Hér er bara svipað veður og hjá ykkur, enginn alvöru vetur komið ennþá en bíðið bara hann kemur, alla vega hér á Íslandi. Allt við það sama hér í kotinu, stefnir reyndar í verkfall hjá Braga núna í mars ef samningar nást ekki hjá framhaldskólakennurum og ríkinu. Þannig að sumarfrísáætlanir eru settar á bið. Vorum á árshátíð FS á föstudaginn þar sem Bragi söng með Boy-bandinu sem gerir það gott innan skólans. Annars er hann í fríi frá söng í vetur en er þess duglegri við málverkið. Voðalega er byrjað snemma að halda upp á öskudaginn hjá ykkur, hér er bara haldið upp á hann á sjálfan öskudaginn 5. mars.
Kærar kveðjur úr Garðinum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 23.2.2014 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.