Kötturinn sleginn úr tunnunni

Kæru bloggvinir

Hér er enn blíðskaparveður. Maður fer að halda að veturinn komi ekkert. En það er of fljótt að hrósa happi. Það hlýtur að koma eitthvað skítaveður. Við náðum meira að segja að þrífa bílinn bæði að utan og innan í dag. Það var svo sem engin vanþörf á. Ótrúlegt hvað þessar bifreiðar geta orðið drullugar. 

Síðasta sunnudag voru vinir okkar frá Odense í heimsókn. Auður og Arndís voru ægilega duglegar að leika uppi á lofti. Eitthvað var frúnna farið að gruna að ekki væri allt með felldu. Hún kíkti á þær og þá voru þær búnar að sprengja grjónastól sem var uppi og það voru litlar frauðkúlur út um allt. Frúnni féllust algjörlega hendur, svo hurðinni var bara lokað og svo var ráðist í að ryksuga þetta í gær. Engin smá vinna. Þeim stöllum fannst þetta hin besta skemmtun og skildu ekkert í því að við vorum frekar óhress með þetta. Þær fóru svo og slógu köttinn úr tunnunni hérna í Tiset. Báðar klæddar út sem prinsessur. Það var nú ekki minna spennandi. Þær fengu nammi og bollu og voru nokkuð sáttar. 

Ágúst var heima á mánudaginn þar sem hann var enn slappur eftir sprautuna. Hann hefur svo verið hress restina af vikunni. Auður kom heim úr leikskólanum á mánudaginn og var komin með hita. Hún var því heima á þriðjudaginn. Hún var hitalaus á þriðjudaginn, en við héldum henni samt heima. Frúin hefur verið eitthvað slöpp líka og fékk svo útbrot á hendur og fætur. Auður fékk það líka og þar sem það er að ganga gin- og klaufaveiki í leikskólanum komumst við að þeirri niðurstöðu að við hefðum fengið væga útgáfu af þessu. Karlarnir á heimilinu hafa sloppið við þetta. En Ágúst fékk þetta á Íslandi í sumar. Þetta hefur því verið óvenju mikil veikindavika á heimilinu. Þó að krakkarnir séu oft kvefuð, þá er mjög sjaldgæft að þau fái hita og komist ekki í leikskóla. Sem betur fer. 

Það hefur svo verið öskudagsskemmtun bæði í leikskólanum hjá Auði og hjá dagmömmunni hjá Ágústi. Auður er búin að hlakka til í heilan mánuð, svo hún var mjög fegin að geta loksins farið í prinsessukjólnum í leikskólann. Ágúst var líka klæddur í búning og var víst góður að vera í honum. Hann skildi nú ekkert í þessu.

Í gær urðum við að skrópa í sundi því okkur var boðið í afmæli. Það gerist nú sennilega ekki neitt við að sleppa því einu sinni. Ágúst hefur reyndar sleppt tvö síðustu skipti því hann var veikur síðustu helgi. Í gær fór bóndinn á fótboltaleik svo við vorum bara ein heima. Í dag réðumst við í stórframkvæmdir. Fataskápurinn inni hjá krökkunum var rifinn í sundur svo við gætum komið honum upp á loft. Þá var hægt að flytja kommóðuna innan frá okkur inn til krakkanna aftur og það kom heilmikið pláss bæði inni hjá krökkunum og inni hjá okkur. Ótrúlegt hvað svona litlar breytingar geta gert mikið. Svo er planið að kaupa koju handa krökkunum þegar Ágúst er orðinn aðeins eldri.

Jæja þetta er víst það sem helst hefur á daga okkar drifið þessa vikuna.

kveðja

Tisetgengið 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband