Rjómablíða

Kæru bloggvinir

hér hefur verið rjómablíða um helgina og þeir eru víst eitthvað að lofa þessu áfram. Það er alltaf nóg að gera á stóru heimili.
Börnin hafa verið með einhvern snert af gubbupest. Ágúst gubbaði í svefni eina nóttina í vikunni, en svo ekkert meir og Auður Elín gubbaði tvisvar sinnum í morgun og svo ekkert meir. Þetta er nú ekki það sem manni finnst skemmtilegast að þrífa upp ælu. En svo sem allt í lagi meðan þetta er bara barnaæla. Það er búið að vera gubbupest að ganga, allavega hjá dagmömmunni. En vonandi er þetta bara búið í bili. Og vonandi sleppum við fullorðna fólkið við þennan ófögnuð.

Bóndinn á í miklu stríði við moldvörpu sem er búin að breyta garðinum hér fyrir framan í moldarflag. Ef hann setur niður gildru þá grefur hún framhjá og svo er hann búinn að prófa að setja gas og alltaf skýtur hún upp kollinum annars staðar. Maður er farinn að halda að þetta sé einhver ofurmoldvarpa sem er alls ekki hægt að koma fyrir kattanef. Hún hefur grafið sig upp úr holu meðan bóndinn stóð hjá og hann reyndi að banka í hausinn á henni með skóflu en hún lifði af. Þetta endar eflaust með að við þurfum að plægja allan garðinn upp aftur og sá grasfræi.

Ágúst hefur verið mjög virkur í að vakna fyrir allar aldir á morgnana og það er enginn möguleiki að fá hann til að sofna aftur. Í morgun var hann tekinn upp í til okkar og reynt að fá hann til að sofna aftur, en það var enginn séns. Bóndinn fór með hann fram í stofu, og hann gekk beint upp í sófa og lagðist þar og sofnaði. 

Í gær lá við að út brytist alvarleg krísa á heimilinu. Frúin fann hvergi úrið sitt og það er nú ekki gott. Varaúrið var batteríslaust, svo þetta var nú hálfgert neyðarástand. En það var farið og fengið batterý í varaúrið. Í morgun fann Auður svo hitt úrið, svo nú ætti þetta allt að reddast, þó að aðalúrið týnist.

Okkur var svo boðið í 60 ára afmæli hjá kunningjafólki okkar í dag. Þar var margt um manninn. Þetta var haldið á veitingarstað og boðið í brunch. Maturinn var nú frekar ógirnilegur, en svo sem allt í lagi. Það voru auðvitað haldnar ræður og sungið, eins og venja er í dönskum afmælum. Og yfirleitt eru sungnir söngvar sem eru svo hátt uppi að nánast enginn getur sungið með. En þeim finnst þetta óskaplega huggulegt. 

Annars er hér allt í föstum skorðum. Auður er mjög ánægð í leikskólanum og spyr á hverjum degi, líka um helgar, hvort hún eigi ekki að fara í leikskólann. Ágúst virðist líka vera mjög ánægður hjá dagmömmunni. Hann er voða duglegur að knúsa alla, bæði allar stelpurnar sem eru með honum og líka fullorðna fólkið. Þau eru alveg eins og svart og hvítt að því leyti systkinin. Ágúst gengur að öllum og talar eitthvað, en Auður vill helst ekki vera neins staðar þar sem er fólk sem hún ekki þekkir. En kannski á þetta eftir að breytast eitthvað. Það er allavega mjög mikilvægt að þau séu ánægð í leikskóla og hjá dagmömmunni. 

Frúin ætlaði að ráðast í að taka til í dótinu uppi á lofti og ryksuga kóngulóavefi, en það vannst ekki tími til þess. Það verður að bíða betri tíma. Kóngulærnar hafa þá meiri tíma til að vinna vinnuna sína. 

Jæja ætli sé ekki best að fara að sinna börnum og búi

kveðja frá Tiset


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband