23.3.2014 | 12:56
Moldvörpustríð þáttur 16
Kæru bloggvinir
hér virðist vera að fara að vora. Tré eru á mörgum stöðum farin að laufgast. Það er nú fullsnemmt, því það er ennþá næturfrost. En þau átta sig náttúrlega ekkert á því að það er oft frekar heitt á daginn. Það liggur við að það þurfi að fara að slá garðinn.
Moldvarpan er ennþá á sínum stað og hlær að aðförum bóndans. Við vorum að vonast til að kötturinn hefði kannski náð henni af því hún var hlaupandi um með eitthvað dýr í kjaftinum sem líktist moldvörpu. En það hefur nú sennilega bara verið mús. Moldvarpan grefur ennþá í gríð og erg. Það verður gaman að vita hvernig þetta lítur út í sumar. Bóndinn er alveg hætt að lítast á blikuna og það er alveg sama hvern hann spyr, þeir hafa ekki hugmynd um hvað er hægt að gera. Svo sennilega verðum við bara að deila garði með þessu kvikindi eitthvað áfram.
Ágúst hefur verið eitthvað hálfslappur þessa vikuna. Hann hefur verið að fá hita seinnipartinn, en svo hefur ekkert verið á morgnana og hann hefur verið hress og borðað vel á daginn. Það er eins og hann sé eitthvað pirraður í munninum, svo kannski eru að koma fleiri tennur. Í nótt var hann eins og andsetinn, gat alls ekki legið kyrr og við sváfum því ekki mikið í nótt. Við erum farin að hallast að því að hann sé með eitthvað í eyrunum, svo það er búið að fá tíma hjá eyrnalækni eftir rúma viku. Hann er orðin mjög ákveðinn og hendir hlutunum í gólfið ef eitthvað er að stríða honum. Hann blaðrar mikið, mest dada og bendir á allt í kringum sig. Að kúka og öll dýr hafa sama hljóð. Kannski ekki beint samhengi þar á milli, en hann hefur allavega fundið út að það er fínt að nota sama hljóð fyrir þessa hluti. Hann er farinn að pæla í hvenær hann er búinn að gera eitthvað í bleiuna. Rífur í bleiuna og segir kúkhljóðið. Auður Elín er í algjöru prinsessukasti þessa dagana. Hún vill bara vera í kjól og horfir aftur og aftur á einhverja prinsessumynd sem hún fékk. Gaman að vita hvað það endist lengi.
Á föstudaginn var vinakvöldmatur og við elduðum saltkjöt og baunir. Við vorum nú alls ekki viss um hvað Danirnir segðu við því. Þeir borða reyndar baunasúpu en borða svínakjöt með. En þeir voru mjög jákvæðir og fannst þetta bara nokkuð gott. Við tókum svo nokkur svið með, bara svona upp á grínið. Dönunum fannst þetta nú hálfgert ógeð, en svertingjarnir sem voru þarna borðuðu þetta með bestu lyst. Þeir eru vanir að borða lambahausa, en þá ferska. Þetta heppnaðist því framar vonum. Það er nú samt ekki víst að við verðum beðin um að elda mat aftur. Aldrei að vita hvað okkur dettur þá í hug.
Í gær var svo brunað til Þýskalands eftir sundið. Við komumst að þeirri niðurstöðu að við verðum að fara að gera meira af því að versla í matinn þar, því verðið hefur hækkað alveg rosalega hérna í Danmörku. Okkur grunar að það hafi eitthvað að gera með að búðirnar eru farnar að hafa mun lengur opið og það skilar sér sennilega í vöruverðið. Það er alveg ótrúlegt að enginn sé að benda á hversu heimskulegt þetta sé að hafa búðir opnar svona mikið. Við fengum svo lambakjöt í gær, beint frá bónda, erum að prófa frá öðrum bónda núna, þar sem sá sem við erum vön að kaupa af, átti ekki neitt. Það verður spennandi að prófa það.
Í dag skín sólin, svo það er spurning um að viðra börnin þegar Ágúst vaknar. Bóndinn fór á fótboltaleik með félaga sínum og kemur ekki fyrr en seinnipartinn aftur.
Jæja það er víst ekki mikið meira merkilegt héðan að frétta
Kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.