6.4.2014 | 11:32
Kattahvarfið
Kæru bloggvinir
Hér er vorið eitthvað að rembast við að koma, en það er nú samt ekki kominn neinn vorfýlingur í mann. Það er oft þoka og hálfnapurt. Það eru nú samt einhverjir farnir að vinna í görðunum sínum. Við komum sennilega ekki til með að setja niður kartöflur í ár þar sem við erum komin á fæði þar sem maður borðar ekki kartöflur. En kannski við hendum niður nokkrum gulrótum fyrir Auði. Hún er hálfgerður gulrótarfíkill.
Bóndinn á bænum hefur verið með einhverja kvefdrullu og er hálfslappur. Ágúst er að fara til eyrnalæknis á þriðjudaginn. VIð vonum nú að hann sé ekki með neina eyrnabólgu. Það væri nú ekkert sérstaklega spennandi. Frúin hefur sem betur fer að mestu leyti sloppið við kvefpestir. Auður er búin að vera þrælkvefuð, en er nú eitthvað að lagast. Hún er farin að vilja vera meira úti að leika. En er nú ekkert lengi í einu, enda ekkert sérstaklega hlýtt. Hún er búin að fara í dans tvisvar sinnum og það hefur gengið mjög vel. Hún er allavega mjög sátt. Við vorum nú smá efins um að þetta myndi ganga því hún byrjaði í leikfimi í haust og það gekk ekki. En það eru miklu fleiri börn og fullorðna fólkið sem á að hafa stjórn á hlutunum er ekkert að standa sig. Þannig að við vonum þetta gangi upp. Hún er orðin töluvert frakkari og þorir fleiri hluti. Hún hefur örugglega lært það í leikskólanum. Hún vill helst ekki vera í of miklum fötum. Rífur sig úr við fyrsta tækifæri. Hún talar voða mikið um að þegar það kemur sumar, þá geti hún verið í kjól, án þess að vera í bol innanundir. Hún er stundum óskaplega umhyggjusöm við bróðir sinn og aðrar stundir er hún voðalega pirruð á honum. En hún getur sem betur fer farið inn í herbergið sitt og verið þar í friði. Hún er mjög dugleg að taka til og þau rífast oft um að hjálpa til við að leggja á borðið. Spurning hvað það verður lengi.
Ágúst er uppátækjasamur með eindæmum. Hann verður örugglega svona strákur sem gerir allt mögulegt af sér og reynir að komast upp með það, með því að sjarmera sig út úr því. Hann er nú þegar komin með réttu taktana í það. Hann er töluvert frakkari en systir sín, móðirinni til ómældrar ánægju! Hann er farin að segja kis kis þegar hann sér köttinn. Kötturinn sem annars er búinn að vera týndur í nokkra daga og frúin reiknaði með hún væri farin á vit feðra sinna. En hún birtist í morgun eins og ekkert hefði í skorist. Enginn veit hvar hún hefur alið manninn. Það væri spennandi ef maður gæti sett myndavél á hana, svo maður gæti séð hvað hún er að ferðast. Ágúst er mjög hrifinn af henni, hún er víst ekki alveg eins hrifin af honum. Hann er nú ekki alltaf mjög mjúkhentur við hana. Dagmamman er með kisu og það er sennilega þess vegna sem honum finnst þetta svona spennandi.
Jæja best að fara að sinna börnum og búi
kveðja
Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.