Fuglaat

Kæru bloggvinir

hér hefur sólin skinið sínu blíðasta síðustu daga. Við erum farin að halda að það sé að koma sumar. Við höfum verið mikið utandyra að njóta veðursins. Í gær fórum við í tívolí hérna rétt hjá. Auður prófaði nokkur tæki. Hún dró móður sína í parísarhjól, henni til mikillar hrifningar. Einstaklega aðlaðandi að hanga í einhverju búri hátt uppi í loftinu og dingla. En við lifðum þetta af og Auður var ekkert smeyk. Ágúst er nú enn of lítill fyrir svona vitleysu, svo hann fylgdist bara með af athygli. Toppurinn á ferðinni var svo að við keyptum ís. Það þykir mikið sport hér á bæ. Í gærkvöldi grilluðum við svo með vinum okkar og borðuðum úti í blíðunni. Það voru ansi þreytt börn sem fóru í rúmið í gærkvöldi og sofnuðu um leið og þau komu upp í. 

Annars hefur verið mikill hasar hér undanfarið. Við vorum farin að heyra ýmis hljóð ofan af lofti. Við höfðum séð að það var fugl búinn að gera sér hreiður í þakskegginu, því hann týnir orma hér fyrir framan. Við vorum farin að heyra ansi mikið í fuglsungum og stundum var eins og þeir væru bara uppi í herbergi. Bóndinn fór því upp í gær að athuga málið. Við vorum farin að halda það væri kominn dýragarður miðað við öll lætin. En hann fann þrjá unga á gólfinu upp í herbergi. Þeir höfðu dottið fram úr hreiðrinu. Það er enn opið upp á loft síðan við tókum skorsteininn, svo það er lítið mál fyrir ungana að detta fram af brúninni og lenda niður í herbergi. Við erum farin að heyra unga hlaupa uppi aftur, svo við þurfum að fara að veiða fleiri. Þeir eru ekki alveg fleygir ennþá, svo það líður einhver tími þar til þeir fljúga úr hreiðrinu og svo eignast fuglarnir örugglega fleiri unga. Það verða því stórar fuglaframkvæmdir framundan.

Annars hefur fjölskyldan verið með magakveisu í vikunni. Ágúst byrjaði og var heima á þriðjudaginn, svo fékk frúin pestina en drattaðist samt í vinnuna. Dagmamman hans Ágúst fékk þetta svo á miðvikudaginn svo hún var með lokað á fimmtudaginn. Auður og bóndinn hafa verið eitthvað slöpp í maganum líka. Svo þetta er búin að vera hin huggulegasta vika. Sem betur fer höfum við þó ekki verið gubbandi, það hefur líka verið að ganga. Ég vill frekar hitt.

Auður er að farast úr spenningi því hún er að fara að hitta vinkonu sína og leika. Það hefur verið ansi erfitt að bíða. 

Jæja ætli maður verði ekki að fara að kíkja á loftið og sjá hvort að unginn sé einhvers staðar þar sem næst í hann. Vonandi að hann fari ekki einhvers staðar milli þilja svo maður heyri fuglagarg hér innan dyra allan daginn.

Sólarkveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband