25.5.2014 | 17:38
Sólarhelgi
Kæru bloggvinir
hér hefur verið blíðskaparveður um helgina og því hefur fjölskyldan nánast ekki komið inn fyrir dyr. Það er búið að sulla í vatni og drullumalla og margt fleira. Frúin hefur farið í hjólatúra með börnin í aftanívagninum. Það er nú víst mest hún sem erfiðar, en þeim finnst þetta mjög gaman. Það er loksins búið að koma reiðhjólinu í gagnið eftir ansi mikla byrjunarerfiðleika. Frúin ætlaði í smá hjólatúr eitt kvöldið eftir að börnin voru komin í háttinn. Hún náði að hjóla svona ca. 3 metra þá hvellsprakk. Bóndinn var nýbúinn að gera við gripinn. Svo það varð að fjárfesta í nýju dekki og slöngu. Þetta er vonandi svona, fall er fararheill. En frúin fór nú bara í göngutúr í staðinn fyrir hjólatúr og það var mjög fínt. Bóndinn er alveg orðinn óður að fara í líkamsrækt og fer oft í viku. Það er þvílíkur kraftur í okkur þessa dagana. Er á meðan er. Bóndinn er allavega búinn að vera á fullu í 12 vikur, svo hann ætti nú að vera kominn í góða þjálfun. Við ætluðum öll að fara að hjóla í gær, en Auður er engan veginn að sættast við hjólið sitt og fer alveg í baklás, svo við erum búin að gefa það upp á bátinn í bili.
Ágúst er voðalega mikið að herma eftir öllu sem við fullorðna fólkið gerum, greinilega mjög athugull ungur maður þar á ferð. Hann segir orðið nokkur orð, bæði á íslensku og dönsku. Um daginn lærði hann orðið kyrrt. Sennilega af því það var búið að segja það við hann 100 sinnum sama daginn. En hann er svo mikill hjartabræðari að það er voða erfitt að vera pirraður mjög lengi út í hann. Hann er mikill áhugamaður um skó og getur dundað sér heillengi við að vesenast með skóna frammi á gangi. Hann vill líka gjarnan ganga í allt of stórum skóm og klæða sig í föt af systir sinni. Hann er líka mjög hrifinn af því að leika sér með teygjurnar hennar og hárspennurnar.
Auður Elín hefur verið í algjöru kjólaæði lengi, en núna er það eitthvað að minnka. Hún vill bara vera í leggins og bol. Endilega ekki of mikið af fötum. Hún vill helst vera sem minnst klædd. Hann vill nú líka helst vera á samfellunni og engu öðru. Hún tekur sig oft til og vill hjálpa bróðir sínum að klæða sig og svoleiðis. Hann hefur nú ekki alltaf þolinmæði í það. En hún gefst yfirleitt ekki upp. Þau eru bæði alveg með eindæmum þrjósk þegar þau bíta eitthvað í sig. Þau sofna yfirleitt um leið og þau leggjast á koddann, þessa dagana, enda eru þau mikið úti við. Auður svaf til kl. 8:30 í morgun. Það hefur aldrei gerst fyrr. Ágúst var hins vegar ekkert að sofa of lengi. Í gær vaknaði hann kl. 5 og í morgun vaknaði hann kl. 6. Ekki verið að eyða tímanum í of mikinn svefn.
Næsta vika verður nú ekki löng vinnulega séð. Þrír vinnudagar. Leikskólinn og dagmamman eru með lokað á föstudaginn, svo börnin verða heima í 4 daga. Þau verða örugglega orðin þurfandi fyrir leikfélaga þegar það er liðið.
Jæja best að fara að slaka á.
Sólarkveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Sæl
Alltaf bíður maður eftir sunnudagsblogginu hjá ykkur. Betra veður hjá ykkur en hér, það rignir nú bara þessa dagana hjá okkur. Það var smáveisla hér í gær, Stefán Arnar kláraði loksins skólann en tekur ekki sveinsprófið fyrr en í haust þegar hann er búinn með vinnutímann sinn. Annars er allt gott að frétta héðan og allir biðja að heilsa.
Kærar kveðjur úr Garðinum
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 25.5.2014 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.