8.6.2014 | 19:46
Fjölgun í fjölskyldunni
Kæru bloggvinir
hér hefur verið prýðisveður undanfarið, en oft bæði rigning og hiti sama dag. Það voru miklar þrumur og eldingar hér í morgun. En það er í fyrsta skipti í sumar sem maður verður var við það. Það er örugglega ekki í síðasta skipti. Það hefur verið mjög heitt hérna seinnipartinn í dag, þeir voru búnir að lofa hitabylgju um hvítasunnuna, en það hefur nú ekki alveg orðið svo heitt eins og þeir lofuðu. Það er kannski ágætt, það er ekkert sérstakt, ef það verður allt of heitt.
ANnars hefur allt verið með frið og spekt hér. Það er byrjað að undirbúa afmæli ungfrúarinnar. Það verður haldið fullorðinsafmæli næstu helgi og stelpuafmæli helgina þar á eftir. Hún er orðin mjög spennt. Það er gert heilmikið úr því á leikskólanum þegar einhver á afmæli. Fáninn dreginn að hún og leikskólinn gefur börnunum gjöf. Svo syngja allir og þetta er víst mjög huggulegt.
Þau systkin eru nú alveg kostuleg þessa dagana. Ágúst verður að gera allt eins og systir hans. Hún pissar stundum úti, ef hún nennir ekki inn. Hann er alveg óður í að rífa sig úr fötunum svo hann geti gert eins. Henni finnst hann nú ansi oft þreytandi, og er mjög upptekin af því að hann fái ekki meira en hún. Henni finnst vera gert mikið upp á milli. Við erum stundum að hlægja að því að þau verði alveg eins og Helga Rut og Elli. Það var hægt að metast um allt þegar þau voru lítil.
Læðan okkar tók upp á því á fimmtudagskvöldið að eiga kettlinga. Hún var búin að vera að fitna undanfarið og spenarnir voru orðnir stórir. En okkur fannst hún búin að vera svona svo lengi að þetta gæti ekki verið af því hún væri kettlingafull. En á fimmtudaginn byrjaði hún að vera eitthvað undarleg og lagðist svo upp í sófa og eignaðist tvo kettlinga. Hún er mjög stygg, svo okkur fannst stórmerkilegt að hún skyldi ekki fara eitthvað í burtu til að eignast kettlingana. Hún er búin að vera mjög mömmuleg. En í morgun byrjaði hún að reyna að bera kettlingana upp í rúm til Auðar og upp í sófa. Hún hefur sennilega verið smeyk við þrumurnar. Það verður spennandi að fylgjast með þessum litlu krílum. Hvort hún nái að koma þeim á legg. Hún er mjög undarlegur köttur. Það er ekki hægt að fara fram á barnameðlög því við vitum ekki hver faðirinn er. Okkur grunar að það geti verið rauður köttur sem heldur mikið til hér í garðinum.
Þegar þessi helgi er búin eru víst ekki fleiri aukafrídagar fyrr en í sumarfríinu í byrjun júlí. En það er ekki svo langt að bíða, svo þetta hlýtur nú að bjargast. Frúin er farin að labba og hjóla nokkrum sinnum í viku. Í kvöld fór hún í smá göngu, og kom heim eftir 1 og 1/2 tíma. Hún villtist eitthvað og var farin að halda að hún þyrfti að ræsa björgunarsveitina. Það hefði allavega ekki hjálpað að hringja í bóndann því hún hefði ekki getað útskýrt hvar hún var. En þetta bjargaðist allt saman. Best að halda sig bara á stígunum sem eru í almannaleið.
Jæja best að fara að slappa af eftir hrakfarirnar.
Kveðja
Tisetgengið
Athugasemdir
Heil og sæl
Það var nú hægt að misskilja fyrirsögnina. Hélt augnablik að lítið kríli væri á leiðinni en mundi svo eftir því að þið voruð búin að segja frá kettlingunum á Facebook. Við erum bæði komin í sumarfrí sem er bara fínt. Það hefur verið fínasta veður hér síðustu daga og bara legið í leti, settum reyndar niður nokkur sumarblóm og eina rós í dag. Ekkert ákveðið hvað við gerum af okkur í sumar nema hvað við leigðum hús á Hólmavík síðustu vikuna í júló og ætlum skoða okkur eitthvað um þar í kring. Fara á Strandirnar og eitthvað fleira.
Góðar kveðjur úr Garðinum.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 8.6.2014 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.