Afmælisveisla

Kæru bloggvinir

Þá er loksins tími til að setjast niður og skrifa blogg. Hér hefur verið haldið prinsessuafmæli í dag, í blíðskaparveðri. Þetta heppnaðist bara alveg prýðilega og ungfrúin var mjög sátt með daginn. Hún fékk barbíhest og dúkku og fór alsæl að sofa með það í kvöld. Það tók hana ekki margar mínutur að sofna enda alveg búin á því. Hún var búin að vera svo spennt. Það var ekki laust við að foreldrarnir væru örlítið lúnir líka. Þau fóru í koparbrúðkaup í gærkvöldi. Það voru fyrrverandi nágrannar okkar sem héldu það. Það var ágætt, en við vorum nú ekkert lengi. Þau voru að til klukkan 3 í nótt. Þau voru því ekki mjög upprifin í veislunni í dag. 

Svo á miðvikudaginn er hún að fara til Ribe með klúbbnum sem hún er í. Þau fara víst einu sinni á ári eitthvað út að keyra. Það hittist svo bara svoleiðis á að það er á afmælisdaginn hennar. En við ákváðum að það væri betra að hún færi með í það en að vera heima hjá okkur. Hún á alveg örugglega eftir að njóta þess vel. Á laugardaginn er hún svo búin að bjóða stelpunum á deildinni í leikskólanum í partý. Það verður örugglega heilmikið stuð, sérstaklega fyrir foreldrana, að halda stjórn á svona skjátum.  Þær eru nú sem betur fer ekki margar.

Bóndinn er búin að setja niður tómataplöntur hér fyrir framan og svo er hann að ráðast í mikla chiliræktun. Hann fékk fræ frá konu sem hann kannast við og ætlar að prófa að sjá hvort það nái að spíra. Ágúst á pínu erfitt með að láta þetta í friði. Honum finnst allt spennandi sem ekki má. Hann skemmti sér nú mjög vel í dag líka. Var allavega alveg á útopnu og lék við lítinn strák sem var hérna. Það er ótrúlega mikill munur á þeim systkinum í því samhengi. Auður er oft voða feimin og þarf smá tíma til að tala við önnur börn, en Ágúst veður í alla og virðist vera alveg sama. Það getur nú breyst, Auður var svoleiðis líka þegar hún var minni. Hann er óttalegur prakkari og mjög stríðinn. Það er alveg óborganlegur svipur á barninu þegar hann er að stríða. 

Annars þarf frúin að fara að finna sér einhverja tómstundaiðju næstu vikurnar. Bóndinn er búinn að hertaka sjónvarpið og ætlar að horfa á fótbolta. Hún getur auðvitað líka lagst inn í rúm og horft á sjónvarpið þar, en þá er nú hætt við hún steinsofni.

Jæja ætli þetta sé ekki nóg í bili
Sumarkveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband