22.6.2014 | 14:27
Stelpuafmæli
Kæru bloggvinir
þá er enn og aftur komin sunnudagur. Það er búið að vera frekar mikið rok í dag og frekar kalt. Við drifum okkur út að leika í morgun, með nesti og nýja skó. Við hrökkluðumst nú eiginlega bara inn aftur eftir svolítinn tíma.
Hér er búið að vera mikið fjör um helgina. Á föstudaginn sáum við um matinn í vinamatnum sem við förum í, svona einu sinni í mánuði. Síðast gerðum við saltjöt og baunir og svið. Í þetta skiptið ákváðum við að gera þetta meira svona alþjóðlegt. Gerðum kjúkling með indversku kryddi og skyrtertu í eftirrétt. Þetta vakti víst allt saman mikla lukku. Í gær var svo haldið stelpuafmæli fyrir Auði. Það komu 4 stelpur. Ein kom en vildi svo ekki verða eftir án mömmu sinnar, svo hún fór heim aftur. Þetta var nú ansi skrautlegt. Þær eru nú allar ákveðnar ungar dömur sem hlusta ekki alltaf á það sem maður segir. En þegar frúin var búin að byrsta sig nægilega, þá gekk þetta nú stórslysalaust. Það voru bæði þreytt afmælisstelpa og ekki minna þreyttir foreldrar sem fóru í háttinn hér í gærkvöldi. Gott að það er hálft ár í næsta afmæli. Það verður nú ekki gert eins mikið úr því. Hann hefur ekki svo mikið vit á þessu, að honum nægir alveg að halda veislu fyrir fullorðna fólkið.
Auður er búin að halda upp á afmælið þrisvar sinnum. Um síðustu helgi kom fullorðna fólkið. Á afmælisdaginn fór hún með ís í leikskólann og sama dag fór hún með sunnudagaskólanum í smá bíltúr. Hún kom ekki heim fyrr en kl. 19:00 og var orðin ansi þreytt. Hún skildi ekkert orðið í þessu. þegar hún svo átti að halda afmælið líka í gær.
Ágúst var í pössun meðan píurnar voru hér í gær, og bræddi nokkrar konur upp úr skónum, svona eins og honum er lagið. Hann er voða mikið að reyna að blaðra eitthvað. Við skiljum nú ekki mikið nema mig, meira, kyrrt, kex og bless. En þetta hlýtur allt að koma. Hann reynir nú stundum á þolrifin á manni þar sem hann er óskaplega forvitinn og vill fikta í öllu og helst því sem ekki má. Auður lagði hann upp í rúmið sitt áðan og vildi leika að hann væri að fara að sofa. Hún fór svo með faðir vorið fyrir hann. Ég heyrði nú ekki hvort hún mundi það allt, en allavega byrjunina.
Nú eru bara 2 vikur í sumarfrí og að Helga Rut komi með alla hersinguna. Það verður nú eitthvað fjör.
Næstu viku verður nú eitthvað rólegra, það er víst ekki annað á dagskrá en að vinna og sofa. En alveg ágætt að slaka aðeins á, eftir svona törn. Það er reyndar alltaf mikið að gera í vinnunni hjá frúnni, það er alltaf mikið að gera svona rétt fyrir sumarfrí. Það er eins og allir verði stressaðir þegar kemur að fríi.
Jæja best að fara að undirbúa kvöldmatinn, það er stefnt í að grilla, þrátt fyrir rok og kulda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.