Síðasta vika í sumarfríi

Kæru bloggvinir

það virðist engin enda ætla að taka, öll þessi rjómablíða. Maður kemur varla inn fyrir dyr og það hefur allavega mjög lítið verið gert hreint hér í sumarfríinu. Það hlýtur að vinnast tími til þess þegar það kemur vetur. 

Við höfum reynt að vera eins mikið úti og hægt er. Við fórum í tjaldútilegu í vikunni, bara gamla settið og börnin. Það var orðið ansi mikil valdabarátta hér meðal ungviðsins, svo við ákváðum að skilja þau að í smá tíma. Það var rosa fínt í útilegunni og mikið buslað í bæði sjó og sundlaug. Ágúst var pínu smeykur í sundinu, vitum ekki hvort það hafi haft eitthvað að gera með að sundlaugarnar eru svo kaldar hér. Kannski var honum bara hálfkalt. Við erum vön að vera í ungbarnasundi, þar sem eru upphitaðar sundlaugar. Hann hefur vaðið út í sjó eins og ekkert sé. Kannski hefur hann bara verið eitthvað illa upplagður. Hann hefur allavega verið allt annað en vatnshræddur, svo við vonum þetta hafi verið eitthvað tilfallandi. Auður var voða dugleg að fara sjálf á rólóinn sem var rétt hjá tjaldvagninum og síðasta daginn var hún búin að finna stelpu að leika við. Hún er oft voða lengi að komast í samband við önnur börn, og var því frekar svekkt þegar við þurftum að fara heim. Hún hefur nefnt það nokkrum sinnum síðan, hvort við förum ekki aftur í útilegu.Ágúst virtist líka vera mjög sáttur með þetta. Hann hefur verið ansi ergilegur yfir öllum gestaganginum og það hefur bitnað á Kristínu Júlíu, hún hefur fengið rosaleg bitför eftir hann. Hann réðst líka á systir sína einn daginn. 

Vonandi kemst einhver ró á þetta þegar þau byrja aftur í leikskóla og hjá dagmömmu á morgun. Þau verða örugglega fegin að komast í fasta ramma og rútínu aftur og að hitta vini sína aftur. Ágúst fékk mynd frá dagmömmunni sinni, af börnunum sem eru með honum þar. Honum finnst voða gaman að skoða myndina og benda á krakkana. Hann er farinn að reyna að tala meira og stundum skilur maður hann og stundum ekki. Það er pínu flókið þegar maður þarf að reyna að geta hvort hann sé að tala dönsku eða íslensku og svo hvað hann er að reyna að segja. En hann er mjög góður að gefa til kynna hvað hann vill, ef maður spyr hann. Hann er voðalega mikil hermikráka og þarf að gera allt sem Auður gerir. Ef hún þarf að pissa úti, þá vill hann líka og verður alveg brjálaður ef hann fær ekki það sem hann vill. Hann vantar ekki ákveðnina blessuðum.
Vinkona Auðar kom hérna í gær og þær léku saman í smá tíma. Það voru miklir fagnaðarfundir. Þær voru greinilega farnar að sakna hvor annarar. Það er erfitt að hittast í sumarfríinu því fólk er á ferðalögum og á mismunandi tímum í fríi.

Auður fékk einhverja hitavellu í gærkvöldi og svaf nánast ekkert í nótt. Hún hefur verið hressari í dag, en var komin með smá hita aftur í kvöld. Hún verður vonandi nógu hress til að fara í leikskólann á morgun, hún hefur verið mjög spennt eftir að byrja aftur. Hún er að fara á síðustu deildina, áður en hún byrjar í skóla og það er mjög stórt mál. Hún er oft að tala um að hún sé að verða gult barn, en deildin sem fer á núna heitir Gula deildin. Það er vonandi að hún verði ekki fyrir vonbrigðum með skiptin.

Kettlingarnir eru orðnir voða stórir og það er búíð að hleypa þeim úr boxinu sem þau voru í. Þeir voru mjög fegnir að fá meira frelsi og hlaupa út um allt og djöflast. 

Jæja ætli sé skki komin tími á að sinna börnum og búi.

kveðja

Tisetgengið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband