Afmæli

Kæru bloggvinir

veðrið er aldeilis búið að skipta um ham hérna. Það er búið að vera meira og minna rigning hér síðustu viku. Það lítur út fyrir að Helga og fjölskylda hafi farið heim með sólina og við fengum rigningu í staðinn. Það er svoleiðis búið að mígrigna hér. Það var svo sem ekki vanþörf á því. Búið að vera þurrt í mjög langan tíma. Við fórum út að labba í morgun í rigningunni. Bóndinn er loksins búinn að eignast regngalla, svo öll fjölskyldan og hundurinn voru drifin af stað í göngutúr. Það var nú bara mjög hressandi. Allir voru vel blautir þegar heim var komið. Við komum við hjá kunningjum okkar, sem eiga líka hund. Nonni og hann voru nú bara rólegir, kannski þeim eigi bara eftir að líka ágætlega við hvorn annan. Nonni er allur að venjast að vera hérna. Hann er ennþá hræddur við kettina og vill helst ekki vera nálægt þeim, en er nú farin að geta verið hjá okkur í stofunni á kvöldin og svona. Hann sefur inni í svefnherbergi hjá okkur á nóttunni, svo þetta er nú sennilega allt að koma. Hann er voðalega rólegur og kippir sér ekki upp við. Börnin eru óskapleg ánægð með nýjasta fjölskyldumeðliminn. Nonni tekur þessu með mikilli ró. Hann er nú vanur börnum.

Börnin og já við líka höfum nú verið með hálfgerða timburmenn síðan gestirnir fóru. Það eru mikil viðbrigði. Það var óskaplega hljótt hérna fyrstu dagana. En við erum nú að venjast þessu. Elli ætlar svo að koma núna um miðjan september, en hann verður nú bara í 6 daga. Mest alla þessa viku höfum við svo haft gesti í mat á kvöldin. Við erum því bara að trappa út hægt og rólega. Við tókum stóra hreingerningu í gær, en það er nú ennþá eftir að taka til á loftinu. Það hlýtur að vinnast tími til þess, allavega ef það heldur áfram að rigna svona. Bóndinn sætti lagi í gær og sló garðinn, hann hefur ekki þurft að slá garðinn í 5 vikur. Það er mjög óvanalegt. Á góðu sumri þarf að slá 2x í viku. Okkur langaði nú að fara í eina útilegu í viðbót, en við sjáum til, við nennum ekki í svona mikilli rigningu. 

Bíllinn er farin á haugana, svo nú þurfum við að koma okkur saman um hinn bílinn. Þetta er búið að vera mjög þægilegt að hafa tvo, en það er eiginlega lúksus að eiga tvo bíla hérna í Danmörku. En kannski meira algengt hérna úti á landi en inni í bæjunum. Það er nánast ómögulegt að nýta sér almenningssamgöngur. Það er búið að skera svo mikið niður. 

Núna þarf svo bara að fara að versla vetrargallana á krakkana. Við vorum svo heppin að Ásta vinkona okkar er að vinna í skólaskjóli og kom með heilan ruslapoka af fötum, sem börnin hafa skilið eftir í skólanum og ekkert vitjað um. Það er ótrúlegt að fólk sé ekkert að pæla í að krakkana vantar fínar úlpur og alls konar vel með farin föt. En við græðum á því. Margt er of stórt ennþá, en það geymist.

Í gær átti bóndinn svo afmæli, hann er farin að nálgast hálfrar aldar afmælið, en við héldum smá veislu fyrir hann í gær og bökuðum bollur og pönnukökur. Það var mjög fínt. Svo átti að gæða sér á hrossakjöti í gærkvöldi, en frúin gat ekki hugsað sér að borða það eftir að hafa borðað rjómapönnukökur og bollur. Við borðuðum það bara í kvöld í staðinn. Börnin borðuðu þetta með bestu lyst, enda algjör herramannsmatur.

Jæja best að fara að slaka á, fyrir átök næstu viku. Frúin er búin með barneignarfríið, svo nú þarf hún að fara að vinna meira og fara í vinnuna á föstudögum líka. 

kveðja úr kotinu

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband