Og enn rignir

Kæru bloggvinir

Þá er enn ein rigningarvikan á enda. Það hafa reyndar komið smá uppstyttur á milli, en ekkert stórkostlegt. Það hefur heldur hlýnað aftur. Og þeir eru að lofa einhverju rosa góðu veðri um miðja næstu viku. Við vonum að það standist, svo það sé allavega hægt að slá garðinn. Það verður að sæta lagi. Og að þurrka þvott er hin mesta kvöl. Það fer alveg að líða að því að maður verði að fjárfesta í þurrkara. Eða vonast eftir þurrki.

Það hefur að venju verið nóg að sýsla hér undanfarna vikuna. Maður skilur ekki alltaf í hvað tíminn fer, en allavega þá líða flestir dagar án þess að maður nái að setjast á afturendann. Bóndinn er búinn að vera að leita að öðrum bíl handa okkur. Sá gamli er orðinn ansi slitinn. Við erum búin að finna einn og fórum að skoða hann í gær. Bóndinn fer svo á morgun og nær í hann. Það er nefnilega ekki hægt að millifæra pening um helgar. Svo er víst ekki hægt að taka út pening í öllum bönkum heldur, svo bóndinn þarf að finna einhvern stóran banka á morgun og sjá hvort það sé hægt að fá pening. Það er nefnilega líka þannig að ef maður millifærir pening milli mismunandi banka, þá tekur það líka einhverja daga. Alveg ótrúlega flott kerfi. En allavega vonum við þetta gangi upp. Við erum að fjárfesta í alvöru fjölskyldubíl. Citroen Berlingo. Hann er víst 6 manna, en við þurfum kannski ekki alveg svo mörg sæti. En fjölskyldan þarf orðið töluvert pláss þegar það eru tvö börn og hundur. Við ætlum svo að kaupa tengdamömmubox, og þá ætti að vera hægt að koma draslinu fyrir. Við ætlum að svo að reyna að selja gamla hrakið og kaupa vespu í staðinn. Svo bóndinn sé nú ekki alveg lens hérna heima. 

Sunnudagaskólinn byrjaði aftur hjá Auði í vikunni. Hún var mjög sátt við það. Henni finnst svo gaman að vera þar. Svo byrjar sundið aftur á laugardaginn, þau verða nú örugglega ekki ósátt við það. Þá fer allt að verða komið í rútínu aftur eftir sumarfríið.
Við erum búin að koma öðrum kettlingnum á heimili. Hann verður bara svona fjósaköttur sem á að veiða mýs og svoleiðis. Það er mjög mikið um slík kvikindi hér. Það þarf svo bara að finna stað fyrir hinn. Það hlýtur að hafast. Annars er alltaf verra að koma læðum frá sér. En vonandi gengur þetta allt saman. Það er allavega gott ef við losnum við þá, það er óttalegur óþrifnaður af þessu. Þeir gera stukkin sín í kattabakkann, en það þarf að hreinsa hann ansi oft þegar það eru þrír kettir sem nota hann. Svo voru þeir búnir að vera að gera stykki sín hérna undir sófann. Það þótti okkur nú ekki nógu gott, en við vonum að þeir séu hættir þeirri vitleysu.

Jæja það er best að slaka aðeins á fyrir átök næstu viku. 

Kveðja úr rigningarlandi

Gummi, Ragga, Auður Elín og Ágúst Ægir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Hér hefur líka rignt um helgina eins og vanalega þegar Sandgerðisdagar eru. Leifar af fellibyl gengu víst yfir í nótt en við sváfum á okkar græna og urðum lítið vör við slæmt veður.   Svo er þetta gos eða ekki gos að gera alla fréttmenn vitlausa og allar fréttir ganga út á umfjöllum um það sem enginn veit eða getur nokkuð sagt um. Við vorum að losna við Einar Ágúst aftur, hann var að byrja í tölvunarfræði í HR og flutti í stúdentaíbúð upp í Grafarholti. Það er nú ansi langt frá skólanum því hann er um klukkutíma með strætó þangað. Hann væri jafnlengi að keyra héðan úr Garðinum.  

Héðan byðja allir að heilsa og vonandi fer nú þessi rigning að hætta.

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 31.8.2014 kl. 21:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband