Rigning með smá uppstyttu

Kæru bloggvinir

það varð nú ekki langvinnur þurrkurinn sem var búið að lofa okkur í síðustu viku. Það voru nokkrir mjög fínir dagar, en svo hefur rignt frekar mikið í dag. En það er nú heldur hlýrra en hefur verið. Svo einhverjir kostir eru nú með þessu. 

Bóndinn fór og náði í nýja bílinn á mánudaginn. Þetta er nýjasti bíllinn sem við höfum fjárfest í síðan við fluttum. Hann er ekki nema 9 ára gamall. Það er vonandi að hann endist í samræmi við það. Það er mjög fínt að keyra hann, en hann er nú ekki kraftmikill. Það er ódýrast að eiga sparneytna bíla, með litlum mótorum. Annars borgar maður svo mikinn þungaskatt. Svo nú lítur maður út eins og amma gamla og keyrir eins og slík. 

Í gær byrjaði ungbarnasundið aftur. Það var voða mikið stuð. Ágúst hefur orðið eitthvað smeykur við vatn í sumar. Hann var mjög mikið í sundi og lenti oft á bólakafi. Svo fannst honum vatnið nú örugglega líka of kalt. En í ungbarnasundinu er vatnið upphitað, svo það er ekki vandamálið. Hann var nú orðinn nokkuð sáttur þegar við vorum búin. Við losnuðum við annan kettlinginn í gær. Hann var gefinn í afmælisgjöf til íslenskrar konu hérna ekki langt frá. Það var búið að ganga úr skugga um að enginn væri með bráðaofnæmi eða slíkt og svo var hann sendur af stað. Hana var víst búið að langa í kettling í einhvern tíma, svo það var nú aldeilis heppilegt. Við vissum ekkert um það. Kattamömmunni virðist vera nokkuð sama. En hinn kettlingurinn hefur nú verið eitthvað hissa á þessu. Það var nú búið að lofa honum til fólks sem við þekkjum, en bóndinn er eitthvað að fá kalda fætur. Kettlingurinn er orðinn svo mikill kúrikall. En við sjáum hvað setur.

Frúin hefur verið að hugsa mikið um hvernig hægt er að gefa börnunum hvert sitt herbergi. Það eru fleiri lausnir í boði, en bóndinn er að sofa á þessu. Þau vekja hvort annað á morgnana. Ágúst vaknar oft um 5 leytið, en Auður vill gjarnan sofa eitthvað lengur. Hún er sérstaklega erfið að fara á fætur á virkum dögum. Það hafa verið einhver niðurskurður í leikskólanum. Þeir hafa orðið að fækka starfsfólki, af því að það eru ekki sérstaklega mörg börn. Það hefur verið frekar erfitt fyrir hana. Hún á voða erfitt með allar breytingar. Það er nú sennilega líka erfiðara að ná sambandi við fóstrurnar, þegar þær eru færri. Vinkona hennar kom í heimsókn í gær og þær léku sér í marga klukkutíma. Þau eru búin að vera að læra um slökkviliðsbíla og hvenær á að hringja á 112. Hún hafði nú eitthvað misskilið það, því hún sá mynd af rútu í sjónvarpinu og vildi meina að svoleiðis bíll kæmi ef maður hringdi í 112. Það þurfti aðeins að leiðrétta það. En hún hafði greinilega fylgst vel með, því hún kom heim á hverjum degi og fræddi okkur um eitthvað.

Ágúst spyr á nokkurra mínútna fresti "hvað er þetta". Og aftur og aftur um það sama. Það hlýtur einhvern tíma að setja sig fast í höfðinu á honum.Hann er ótrúlega þolinmóður við systur sína, en við reiknum nú ekki með því að það verði lengi. Hann hlýtur að enda með því að svara fyrir sig.

Jæja það er víst ekki mikið meira að frétta héðan í bili

kveðja

Gummi, Ragga og börn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband