Og enn rignir

Kæru bloggvinir

það er nú ennþá töluvert vætusamt hjá okkur, en það var þurrt í  gær og frekar hlýtt. En ætli það fari ekki að kólna meira núna þegar við komum lengra inn í haustið.

Næsta föstudag ætlar Elli og kærastan hans að koma í heimsókn í nokkra daga. Það verður nú örugglega kátt í kotinu þá. Það hefur verið frekar tómlegt eftir að Helga fór. 

Auður er mikið að spá og spekulera þessa dagana. Hún er voða mikið að spá í bókstafi. Þau eru greinilega að tala um það í leikskólanum. Hún er voða upptekin af tunglinu og um daginn komst hún að því að tunglið hlyti að heita himinsson af því það er á himninum. Já stundum skilur maður nú ekki alltaf hvaðan börnin fá þessar hugmyndir. Hún mjög upptekin af hvar hún eigi að fara í skóla. Við erum að fara í viðtal í einum skóla á föstudaginn, til að heyra hvernig hann er. Það eru ansi mörg börn í hverjum bekk, svo það er nú eiginlega frekar mikill ókostur. Hinn skólinn sem við erum að spá í er einkarekinn, og það eru fá börn í hverjum bekk. Það skiptir auðvitað líka miklu máli hvort það sé einhver sem reynir að hafa stjórn á börnunum.

Kettlingurinn hefur vakið gríðarlega lukku þar sem hann fór. Hann er orðinn mjög kelinn og allir eru mjög hrifnir af honum. Krakkarnir í götunni hjá honum eru alltaf að koma og tékka og annar strákurinn á heimilinu vildi ekki fara í skólann eftir helgina af því hann var ekki viss um að pabbi hans gæti klappað kettinum rétt. Já þetta er ekki einfalt.

Í gær var farið í sund. Við urðum að fara upp úr lauginni fyrir tímann af því einhver gubbaði í hana og það varð að hreinsa hana. Þeir eru voða stressaðir yfir svona löguðu. Maður má bara vera í 15 mín í einu í heitu pottunum, svo þarf að hreinsa hann. Við höfum aldrei skilið þetta almennilega. En þetta er örugglega vísindalega rannsakað. 

Ágúst oft með ansi mikil tilþrif þegar hann fær ekki það sem hann vill. Hann setur í axlirnar og setur upp einhverja svipi. Hann getur tekið ægileg dramaköst, en er nú mjög fljótur að jafna sig.
Við erum enn að velta fyrir okkur hvernig við getum fengið meira pláss fyrir krakkana. Nýjasta hugmyndin er að hengja rúm upp undir lofti. Þá fær maður allavega meira gólfpláss. En þetta er enn allt á hönnunarstigi.

Við erum ennþá með hinn kettlinginn, ætli hann verði ekki bara hjá okkur. Hann er voða mikill kelikarl og vill allavega gjarnan vera hjá pabba sínum á kvöldin. 

Leiðin heldur svo til Odense í dag að heimsækja vini okkar. Það verður spennandi að sjá hvernig nýji bíllinn stendur sig á hraðbrautinni. Ætli allir verði ekki orðnir brjálaðir á okkur af því við keyrum svo hægt. 

Kveðja

Gummi, Ragga og börn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband