28.9.2014 | 14:56
Lýsnar mættar á svæðið
Kæru bloggvinir
það er ekki bara haustið sem er komið hér í sveitinni. Við fundum lýs á dótturinni í morgun, svo fyrripartur dagsins hefur farið í að hreinsa höfuðið á henni og þvo sængurföt og allt sem þessu fylgir. Frúin var með eina lús, en hún hefur nú sennilega bara hoppað á hana þegar hún var að kemba Auði. Hinir í fjölskyldunni hafa sloppið, allavega enn sem komið er. Vonandi höfum við komist fyrir þetta í bili. Það hefur annars ekki verið mikið um lús upp á síðkastið, en þetta kemur alltaf í svona lotum.
Annars er búið að vera nóg að gera eins og venjulega. Auður fór í sunnudagaskólann á fimmtudaginn og heim með vinkonu sinni á föstudaginn. Svo var farið í sund í gær og frúin og Auður fóru í verslunarleiðangur til Þýskalands. Bóndinn hafði þá afsökun að hann þurfti að horfa á fótbolta, svo hann komst ekki með, en Ásta vinkona okkar kom með. Aðalerindið var að kaupa sundboli á frúrnar og það heppnaðist nokkuð vel. Fengum tvo sundboli fyrir minna verð en einn í Danmörku. Ekki slæmt það. Vonandi að þeir endist eitthvað. Þeir setja alveg rosalega mikinn klór í laugarnar hérna, svo það fer nú ekkert mjög vel með sundfötin.
Í dag fór Auður svo með pabba sínum í sirkus. Hún var búin að bjóða tveimur vinkonum sínum með, en þær gátu ekki, svo hún bauð Charlottu hennar Ástu með. Hún var ótrúlega spennt yfir þessu. Bankinn okkar gefur krökkunum miða einu sinni á sumri, af því þau eru með reikning í bankanum. En það má bara fara einn fullorðinn með og frúin hefur farið tvisvar sinnum, svo bóndinn fékk að fara núna.
Í kvöld kemur svo staðgönguamman í mat til okkar. Hún fór í leikskólann til Auðar um daginn, þegar það var ömmu og afadagur. Konurnar á leikskólanum sögðu að það hefði verið eins og hún væri alvöru amma hennar, af því henni fórst þetta svo vel úr hendi. Það er voða gott að hafa svona ömmu í nágrenninu, þegar ekta ömmurnar eru fjarri góðu gamni. Það kemur náttúrulega ekkert í staðinn fyrir ekta vöruna.
Ágúst talar meira og meira. Við skiljum nú ekki allt, en hann er mjög duglegur að gera sig skiljanlega. Hann er að verða voða upptekinn af því að gera allt sjálfur og verður frekar pirraður þegar maður reynir að hjálpa. Hann var til dæmis frekar súr þegar frúin vildi ekki leyfa honum að renna sjálfur í sundrennibrautinni í gær. Hún er frekar stór og löng. En hann vildi meina að hann gæti þetta alveg sjálfur. Það eru sem sagt spennandi tímar framundan. Við lifðum þetta af með Auði, svo við reiknum með þetta hafist allt saman. Það er líka voða gaman að þessum tilburðum í þeim. Hann pissaði á gólfið í búningsklefanum í sundlauginni í gær. Hann fór eitthvað að spá í tillann á sér í því samhengi. Svo þurfti hann auðvitað að kíkja uppundir hjá mömmu sinni til að sjá hvers konar tæki hún væri með. Sem betur fer réðst hann ekki á einhverjar ókunnugar konur.
Jæja best að fara að elda matinn
Kveðja
Tisetgengið og lúsablesarnir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.