Haustfrí

Kæru bloggvinir

þá er frúin smituð af þessari haustflensu. Hún er þó ekki eins slæm og strákarnir. Allavega ekki ennþá. Auður hefur sloppið hingað til. Næstu vikuna er haustfrí í skólunum hér. Í gamla daga áttu börnin að hjálpa til við að taka upp kartöflurnar. En það er víst búið, svo blessuð börnin ættu að geta slakað á.

Það hefur verið nóg að gera hér eins og venjulega. Í gær var farið í að taka saman sólhúsgögnin og hreinsa til hér úti á verönd. Það er nú alltaf pínu sorglegt að taka þetta saman, þá veit maður að það er langt þar til maður getur setið úti og borðað aftur. En þetta er nú líka mjög fínt og hreint núna. Bóndinn sló garðinn í gær. Við vonum nú að það fari að fækka sláttuferðunum. Það er allavega ekki eins hröð spretta og hefur verið. Það er farið að hausta ansi mikið og laufin farin að fjúka um allt.

Í dag var svo haldið í heimsókn til vina okkar í Odense. Þar er fjölgunarvon og getur krílið komið hvenær sem er. Stelpurnar eru voða duglegar að leika sér og strákarnir eru eitthvað að æfa sig. Þeir eru nú ekki alveg búnir að finna út hver ræður. En þeir finna nú örugglega út úr því. Stelpur eru nú oft með meira vesen í svona löguðu.

Í næstu viku er svo frúin að vinna einhverja daga og Auður fer í leikskólann. Dagmamman hans Ágúst er í fríi, svo hann verður heima með pabba sínum. Hann er ennþá með ljótan hósta. Frúin fór með hann til læknis á föstudaginn, en hann er bara kvefaður og ekki mikið við því að gera, en að bíða og sjá hvað verður. Bóndinn er ekki eins slæmur og hann hefur verið, svo þetta er að ganga yfir vonum við. Auður hefur ekki enn fengið þetta. Við vonum bara hún sleppi. Hún fær sjaldan kvef nú orðið. Hefur seennilega tekið þetta út þegar hún var yngri.

Við erum búin að kaupa miða í Legoland í fríinu. Auður er búin að suða um þetta lengi, svo nú var látið verða af því. Við verðum að velja einhvern dag í næstu viku þegar það er sæmilegt veður. Það verður nú örugglega troðið af fólki, en það verður bara að taka það með í reikninginn. Ætli hún verði nú ekki svo ringluð af þessu öllu að það verði nóg fyrir hana bara að sjá þetta í fyrsta skipti. Hún er voða mikið að spá og spekúlera þessa dagana og oft kemur eitthvað fyndið út úr henni. Hún tekur oft upp á að tala um eitthvað sem hefur gerst fyrir löngu síðan. Hún er að læra stafina í leikskólanum og er mjög upptekin af því. Arndís vinkona hennar er byrjuð í skóla og þetta er allt saman mjög spennandi.

Ágústi fer mjög mikið fram í að tala og er farin að tengja saman tvö og tvö orð. Hann er mjög ákveðinn ungur maður og ef maður skilur hann ekki, þá er hann góður að koma manni í skilning um hvað hann meinar. Hann er voða stríðinn og fær systir hans oft að finna fyrir því. Hún er hins vegar ekkert að tvínóna við það og lætur hann finna fyrir því ef hún er pirruð á honum. Það verður einhvern tíma stuð þegar hann fer að krefja meira af sömu hlutum og hún. Núna fær hún oft að ráða. En það gengur nú ekki lengi.

Jæja best að fara að koma sér í bælið svo maður geti vaknað í vinnu í fyrramálið.

 kveðja

Tisetgengið 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl

Alltaf bíður maður eftir sunnudagspistlinum frá ykkur því það er gaman að fá fréttir af ykkur.    Héðan er allt gott að frétta við bara tvö í kotinu en Stefán kíkir nú oftast í mat um helgar. Við erum á leiðinni til London næstu helgi þá er frí föstudag og mánudag í báðum skólunum. Ætlum aðeins túristast þar og kannski að kíkja smá í búðir ef ég fæ kallinn til þess. 

Vonandi batnar heilsan hjá ykkur fljótlega en við höfum sloppið ennþá við haustkvefið.

Kær kveðja úr Garðinum

Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 12.10.2014 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband