19.10.2014 | 19:27
Tannálfurinn
Kæru bloggvinir
þá er haustfríið að renna sitt skeið. Það hefur auðvitað ekki verið setið auðum höndum hér frekar en vanalega. Það er búið að vera ágætis veður, rigning og suma daga frekar kalt. En ágætis haustveður. Það er búið að fara og versla ný föt fyrir ungfrúnna á bænum. Hún er að vaxa mikið núna, svo buxurnar eru orðnar of stuttar. Svo er búið að fara í Legoland. Það var gjörsamlega troðið af fólki, og biðraðir í öll tæki, en börnin skemmtu sér konunglega og kvörtuðu ekki einu sinni yfir að þurfa að bíða í allt af 45 mínútur eftir að komast í sum tækin. Þau hafa svo sem ekki prófað að fara á svona stað áður, svo þau vita ekki hvernig þetta er venjulega. Það voru því dauðuppgefin en glöð börn sem komu heim hér á fimmudaginn. Þau suðuðu ekkert allan daginn, en fengu ís áður en við fórum heim. Það er annars ekki vandamál að eyða peningunum í Legolandi. Það er ótrúlegt hvað þetta fyrirtæki smyr á allt. Við vorum algjörlega að missa okkur yfir okrinu þarna. En það þýðir ekkert að tala um það. Svona er þetta bara og maður verður að reyna að halda fast í veskið þarna inni.
Svo var haldið til Odense í gær að kíkja á nýja prinsinn þar. Hann er ekkert smá lítinn og krúttlegur. Frúin fékk að máta hann. Alveg ótrúlegt, hvað maður er fljótur að gleyma hvað nýfædd börn eru lítil. Það eru nú ekki nema tvö ár síðan Ágúst kom í heiminn og maður er alveg búin að gleyma þessu. Ágúst var óskaplega spenntur yfir drengnum og vildi ólmur halda á honum. Hann fékk að prófa og fannst þetta allt mjög spennandi. Auður fékk líka að prófa að halda á honum, en var annars ekkert svo spennt yfir þessu. Hún vildi frekar leika við Arndísi.
Auður var búin að vera mjög spennt yfir að missa fyrstu tönnina og var búin að tala um það lengi að hún vildi fá lausa tönn. Við vorum að reyna að segja henni að það væri nú erfitt að stjórna því. En svo nýlega byrjuðu framtennurnar að losna og á föstudaginn náði hún svo sjálf að rífa eina framtönnina úr. Hún setti hana undir koddann og fékk pening frá tannálfinum í staðinn. Hún hefur verið mjög upptekin af þessu öllu og hlakkar óskaplega til að fara í leikskólann á morgun og segja frá þessu. Já það þarf ekki alltaf mikið, til að gera þessi börn glöð. Á föstudaginn gistu Auður og Ágúst svo hjá vinafólki okkar svo við gætum sofið út. Við nýttum tímann til að keyra næstum til Árósa til að kaupa notuð vetrardekk og fórum svo út að borða á leiðinni heim. Það var ekkert smá góður matur. Við smökkuðum bæði krókódílakjöt og kengúrukjöt. Okkur fannst það nú ekkert spes. En þeir voru líka með ótrúlega gott lambakjöt. Eitthvað sem Danir eru annars ekkert góðir í.
Í dag hefur svo bara verið nóg að gera að fá allt í réttar skorður aftur, áður en það skellur á venjuleg vinnuvika í næstu viku. Frúin er að vinna lengi alla daga, því hún er að fara á námskeið. Það er ágætt að vera búin að vera í fríi nokkra daga til að hvíla sig fyrir þessi átök. Við fengum svo Óla og Ástu og tvö af börnunum þeirra í mat í kvöld. Svo það er víst fyrst núna sem maður nær að slaka eitthvað smá á. En svona er þetta bara. Við ættum að vera farin að þekkja rútínuna. Frúin er líka búin að ná að baka brauð. Kannski það dugi út vikuna.
Jæja best að slaka á, fyrst maður er kominn í sófann.
kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.