Rok og rigning

Kæru bloggvinir

Hér er búið að vera rok og rigning um helgina og ekkert mjög spennandi útiveður. Laufin eru smám saman að verða fokin af trjánum. En það er einhver reitingur eftir. Það er mjög mikill raki, svo að það virkar frekar kalt.

Á föstudaginn var nóg að gera. Bóndinn og börnin fóru í vinakvöldmat og við bökuðum pizzu til að gefa fólkinu að borða. Það var ægilega hrifið af þessu. Við gerðum líka kokteilsósu og íslenskt hvítkálssalat. Þetta var allt étið af bestu lyst. Frúnni var boðið í fyrirlestur á föstudagskvöldið. Þetta var eitthvað svona konukvöld. Frúin var nú ekkert hrifin af fyrirlesaranum, en þetta var mjög huggulegt. Maturinn heppnaðist líka mjög vel hjá bóndanum og honum mikið hrósað.

Í gær var svo brunað í sund eins og venjulega. Þau eru bæði óttalegir vatnshundar og finnst þetta rosa skemmtilegt. Þegar við komum heim var nóg að gera og við vorum ekki alveg með augun á syni okkar. Það kom svo í ljós að hann sat á skammeli og var búin að ná í málningartúbu. hann sat á stólnum og kreisti allt úr henni. Þegar pabbi hans spurði hvað hann væri að gera, þá sagði hann sem satt var, að hann væri að mála. Það var hellings verk að ná þessu öllu úr og spurning hvort maður hafi náð þessu öllu úr. Hann er að verða ansi uppátækjasamur eins og pabbi hans var á yngri árum. Þá held ég nú við þurfum að fá róandi ef hann verður eins.

Við fengum gamla nágranna okkar til að raka innkeyrsluna með traktor og stórri hrífu. það tókst ekki betur til en svo að hann rispaði sökkulinn á húsinu á mörgum stöðum. Braut þakrennu og reif internettenginguna úr veggnum og sleit hana í sundur. Það var því allt sjónvarpslaust og internetlaust i tvo daga. Það varð þó til þess að bóndinn tók til í öllum ljósmyndunum okkar og setti í tímaröð. Þetta er búið að vera á dagskrá mjög lengi. Það getur verið að þetta verði til þess að það komi aftur inn myndir hér á síðuna.

Í vikunni gaf uppþvottavélin líka upp öndina. Okkur til mikillar mæðu. Við fundum svo notaða vél hér í nágrenninu, sem bóndinn fór og sótti í gær. Svo nú krossum við fingur fyrir að það bili ekki fleiri stór tæki á næstunni. Þetta er orðið alveg ágætt. Og svona rétt fyrir jól.

Næstu helgi verður svo haldið upp á afmæli unga mannsins á heimilinu. Hann skilur nú víst lítið í umstanginu, en það verður nú samt að halda upp á afmælið hans.

Jæja best að fara að sinna börnum og búi.

Kveðja

Gummi, Ragga og börn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband