Jólasveinninn kemur til Tiset

Kæru bloggvinir

Hér hefur heldur betur verið tekið á því í jólatrésskemmtunum. Á fimmtudaginn var jólatrésskemmtun í sunnudagaskólanum. Á föstudaginn var svo jólatrésskemmtun í leikskólanum. Þar kom jólasveinn með nammipoka. Í fyrra kom jólasveinninn, en hann var ekki í neinum buxum. Auður var mjög undrandi á því að jólasveinninn í ár hafði munað eftir að fara í buxur. Henni fannst það nú víst betra. Þetta var mjög fínt. Dansað í kringum jólatréð og sungin nokkur lög.Frúin hitti tvær stelpur sem voru með henni í mæðrahóp, þegar Auður var lítil. Við vorum 4 í hópnum. Tvö af börnunum sem voru í hópnum eiga að fara í sama skóla og Auður. Það er nú svolitið sérstakt. Þau muna auðvitað ekkert eftir hvert öðru. Við hættum að hittast þegar þau voru árs gömul. Á jólaskemmtuninni í leikskólanum sungu elstu krakkarnir jólalag og komu öll inn í einni röð. Þetta var óskaplega fallegt. Frúin sagði við Auði að henni fannst þetta svo fallegt að hún var næstum farin að gráta. Auður skildi það nú ekki alveg og hélt að ég hefði meitt mig eitthvað, fyrst ég var að fara að gráta.

Í gær komu svo Óli og Guðný í heimsókn með allan krakkahópinn. Auður var ekkert smá glöð að hitta Arndísi vinkonu sína. Hún hefur talað mikið um að hún sakni hennar. Þær léku sér allan daginn í gær, án þess að rífast. Það var þreytt stúlka sem fór í rúmið í gærkvöldi og ekki minna þreytt í dag. Í morgun fór hún með pabba sínum til Þýskalands. Þau hlustuðu á jólalög í bílnum. Það hefur Auður talað um lengi og hlakkað mikið til að mega hlusta á það. Svo fór hún að leika við vinkonu sína hérna á móti og eftir það fórum við að taka á móti jólasveininum í Tiset. Það var breytt út af venjunni í ár og gengið í kringum jólatré og allt mögulegt. Þetta var mjög fínt og krökkunum fannst þetta mjög sniðugt. Nú ættum við að vera búin að hitta nógu marga jólasveina í bili. Ágúst var nú smeykur við jólasveininn sem hann hitti á föstudaginn, en í dag var hann ekkert smeykur. Auður vildi endilega halda í hendina á honum í dag og var mjög sátt við það.

Bóndinn var að byrja að skreyta hérna fyrir utan í dag. Það er búið að vera alveg ótrúlega kalt, þó það hafi ekki verið frost. Það hefur verið rok og það hefur verið alveg nístingskalt. En það er allavega ekki snjór eða slíkt ennþá.

Jæja ætli sé ekki best að fara að slaka á.

kveðja

Gummi, Ragga og barnaskarinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband