7.12.2014 | 18:43
Jólabakstur
Kæru bloggvinir
þá er baksturshelgin mikla yfirstaðin. Það er búið að baka kleinur, randalínu, brúnköku og fleira. Nóg að gera. Bóndinn er að spá í að skella í sörur líka. Við megum nú svo sem ekkert borða sætindi, en höfum ákveðið að láta lögmálin lönd og leið í desember og taka á því í ræktinni og fara aftur í strangt aðhald í janúar. Jólin koma nú bara einu sinni á ári.
Við hjónin fórum á kórtónleika á fimmtudaginn. Við höfum nú ekki brugðið okkur af bæ saman ansi lengi. Þetta var mjög fínn kór og skemmtileg tónlist, þó hún væri nú ekkert sérstaklega jólaleg. Ágúst fór að skreyta jólatré í vinnuvélabúðinni hér í Tiset, með dagmömmunni. Þar hitti hann enn einn jólasveininn, sem gaf börnunum endurskinsvesti. Honum finnst hann mikill töffari í þessu. Um að gera að venja hann við að vera í svoleiðis, áður en honum fer að finnast þetta eitthvað hallærislegt. Við erum búin að fara og gefa hestunum brauð og viðra börnin í leiðinni. Nonna er meinilla við hestana og reynir að ráðast á þá.
Í morgun fórum við í fjölskyldumessu. Það var mjög fínt og börnin voru ótrúlega stillt. Svo var tekið á móti Íslendingum í kaffi og seinna um daginn komu svo kunningjar okkar, sem búa rétt hjá okkur. Þau hafa verið ein af þeim fáu sem hafa talað eitthvað við okkur, síðan við fluttum hingað.
Það hefur verið óvenju hlýtt haust hérna. Það kom smá kuldakafli um daginn, en núna er aftur orðið hlýtt. Þetta er ansi flókið, en auðvitað fínt að hafa gott veður. Það er nú samt frekar mikil grámygla og rigning. En heldur það, en snjó og hálku.
Bóndinn hefur verið mjög öflugur að skreyta og finnst Dönunum þetta örugglega mikil óráðsía að hafa öll þessi ljós í öllum gluggum og í garðinum. Þeir sjá örugglega ofsjónum yfir þessu öllu.
En það er best að fara að slaka aðeins á eftir átök helgarinnar.
Kveðja
Tisetgengið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.