14.12.2014 | 18:36
Jólaklipping
Kæru bloggvinir
hér hefur enn ekki sést mikið til vetrar. Fyrstu merki þess það væri eitthvað vetrarlegt, kom í vikunni. Það var nálægt frostmarki og smá hálka einn morguninn. Annars hefur mest verið rok og rigning. Danirnir kvarta mikið yfir að þeir vilji fá frost, svo þegar kemur frost, fer allt í stress og vitleysu. Annars væri ágætt að fá smá frost, það er moldvarpa í garðinum, sem er að verða búin að grafa upp allan garðinn. Það gæti verið hún legðist í dvala, ef það kæmi almennilegt frost.
Ungfrúin á heimilinu tók upp á því í vikunni að fara inn á klósett í leikskólanum og klippa á vinkonu sinni hárið. Vinkonan snyrti líka hressilega á Auði hárið, svo það þarf að fara með hana í klippingu fyrir jólin og reyna að laga þetta. Auður vill auðvitað meina að hún sé alveg saklaus, en við trúum því nú ekki alveg. En lán í óláni að það var ekki klippt styttra en þetta.
Það er allt að verða klárt fyrir jólin. Bóndinn tók sig til í vikunni og skellti í sörur. Þá er bara eftir að kaupa síðustu jólagjafirnar og jólamatinn og jólatréð. Þá er þetta komið. Manni finnst nú hálfskrýtið að jólin séu að koma. Maður er einhvern veginn aldrei tilbúinn í það. Frúin þarf að vinna næstu viku og mánudaginn í vikunni á eftir. Svo er hún komin í jólafrí. Helga Rut og Kristín Júlía koma á laugardaginn. Það er mikil tilhlökkun á heimilinu. Auður segir oft á dag að hún sakni systir sinnar og fer að gráta. Það verða sennilega miklir fagnaðarfundir þegar hún kemur loksins.
Í gær fórum við í sund eins og venjulega. Ágúst og pabbi hans voru að djöflast eitthvað, sem endaði með því að Ágúst gubbaði yfir sig og móðir sína og það varð að ríma sundlaugina og loka henni á eftir. Ekki skemmtilegt það. En svo sem ekki von á öðru þegar það er verið að hamast of mikið. Í dag renndum við svo til Odense í kaffi. Auður var búin að tala mikið um að hún saknaði Arndísar vinkonu sinnar. Þær voru voða duglegar að leika.
Jæja best að fara að henda sér í sófann og slaka á.
kveðja frá Tiset
Gummi og co
Athugasemdir
Heil og sæl
Hér er sko allt í snjó og búið að vera "brjálað" veður víða um land, minnst kannski hér á suðvesturhorninu. Við komumst að mestu leiðar okkar. Kallinn er að syngja á jólatónleikum í kvöld og var Bjúgnakrækir í morgun í sunnudagaskólanum í Keflavíkurkirkju. Alltaf gaman að leika sér. Við eigum eftir að vinna í viku og þá erum við komin í jólafrí, mikið hlakka ég til. Hafa ekki flestir lent í því að hárið sé klippt "óvart" og svo þarf að redda hlutunum. Við getum huggað við það að hárið vex aftur. Hér er nú ekki mikið jólastress og við tökum því rólega og njótum aðventunnar.
Vonandi hafið þið það gott um jólin og við heyrumst um hátíðirnar.
Gunna og Bragi (IP-tala skráð) 14.12.2014 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.